Gönguhátíð í Súðavík 2.-6. ágúst

Ánægðir göngumenn á tindi Kofra í Álftafirði.

Gönguhátíðin í Súðavík verður haldin í fimmta skipti um verslunarmannahelgina 2.-6. ágúst. Þá lifnar svo sannarlega yfir þessu fallega þorpi í Álftafirði og göngufólk mætir vestur og slæst í hóp með heimafólki. Skólastjórinn Anna Lind, skipstjórinn Barði og oddvitinn Steinn verða í broddi fylkingar í leiðsögn en auk þess koma fleiri að skipulagningu og undirbúningi.

Allir morgnar hefjast á hafragraut með lifrarpylsu og lýsisskammti á Jóni Indíafara og þá er farið yfir dagskrá dagsins. Í göngum verður Lambárgil í Hestfirði skoðað, Vatnshlíðarfjall í Álftafirði, gengið verður eftir strönd Seyðisfjarðar í Djúpi þegar ótrúleg saga Harry Eddom er rifjuð upp, Kaldbakur verður toppaður, sögugangan um Súðavík er fróðleg sem endranær, kvöldgangan í Kambsnesi verður rómantísk og angurvær, Ögurgangan endar með veislu og Kofragangan er ógleymanleg öllum sem treysta sér í hana.

Á kvöldin verða viðburðir eins og brenna í sundlauginni á föstudagskvöldinu, grill í Raggagarði og ball í Samkomuhúsinu á laugardagskvöldinu og létt stemning í Jóni Indíafara á sunnudagskvöldinu.

Hægt er að kaupa gönguarmband á kr. 7000 og er innifalið tjaldsvæði, allar göngur, aðgangur á ballið og hafragrautur með lifrarpylsu, lýsi og kaffi á morgnana.

Sjá má alla dagskrána á: http://sudavik.is/frettir/Gonguhatid_i_Sudavik/ og hægt er að fylgjast með tíðindum af hátíðinni á Facebook: https://www.facebook.com/gonguhatid/

Nánari upplýsingar gefur Einar Skúlason í GSM 663-2113.

Frá gönguhátíð í Súðavík.
DEILA