Fylgi Vinstri grænna hrunið á Vesturlandi og Vestfjörðum

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm. Vinstri grænna.

Fylgi við Vinstri græna hefur hrunið frá síðustu kosningum á Vesturlandi og Vestfjörðum sé það borið saman við niðurstöðu í síðustu könnun MMR sem birt var í síðustu viku.

Sundurliðun á heildarniðurstöðum könnunarinnar eftir landssvæðum sýnir að fylgi Vg er aðeins 6,7% á þessu svæði. Í Norðvesturkjördæmi fékk Vg góða kosningu í alþingiskosningunum 2017 eða 17,8%. Var það næst besta útkoma flokksins, aðeins í Norðausturkjördæmi fékk Vg meira fylgi 18,6%.

Athuga ber að í sundurliðum MMR er Norðurland tekið saman sem eitt svæði. Skagafjörður og Húnavatnssýslurnar sem tilheyra Norðvesturkjördæmi vantar því til þess að gera tölurnar samanburðarhæfar á kjördæmisvísu. Í könnuninni er fylgi Vg á Norðurlandi hins vegar aðeins 9,3% og á Austurlandi enn lægra eða 5,8%. Ætla má því að fylgi Vg í Norðausturkjördæmi verði aðeins um 8%.

Það fer því ekki milli mála að algert hrun er orðið í fylgi við Vinstri græna í þessum tveimur kjördæmum Norðvestur- og Norðausturkjördæmi eins og staðan er nú samkvæmt könnun MMR.

Yrðu úrslit næstu Alþingiskosninga í samræmi við greiningu MMR myndu Vinstri grænir missa þingsæti sitt í Norðvesturkjördæmi og fá með naumindum aðeins einn þingmann í Norðausturkjördæmi.

Athyglisvert er að ætla má, miðað við sömu gögn, að fylgi Vg í Suðurkjördæmi verði svipað og í síðustu Alþingiskosningum, um 11%.

DEILA