Flateyri: 300 tonn flutt á Sirrý ÍS 36

Togarinn SirrÝ 36 skartaði sínu fegursta á sjómannadaginn í Bolungavík.

Byggðastofnun flutti 300 þorskígildi á Sirrý ÍS 36 af 400 þorskígildistonna kvótanum sem Byggðastofnun hefur ráðstafað til Flateyrar.

Í fyrra var gerður samningur til sex ára milli Byggðastofnunar, Hlunna ehf Flateyri, ÍS 47 ehf Ísafirði og West Seafood ehf Flateyri. Tilgangur samningsins er að styrkja byggðina á Flateyri. Leggur Byggðastofnun árlega 400 þorskígildi. Skuldbinda samningsaðilar Byggðastofnunar sig til þess að vinna árlega a.m.k. 1500 tonn af bolfiski á Flateyri.

Í samningnum segir að framsal kvótans sé óheimil en heimil jöfn skipti á aflamarki í þorksígildum talið. Það eru því bátar samningsaðila sem eiga að veiða umræddar kvóta.

Byggðastofnun hefur staðfest að 300 þorskígildistonn á yfirstandandi fiskveiðiári hafi verið flutt á Sirrý ÍS 36 sem er í eigu Jakobs Valgeirs ehf.

Í svari Byggðastofnunar segir:

„Annars vegar 80 tonnum að beiðni Hlunna ehf. Tilgangur þess var að skipta út tegundum en Aflamark Byggðastofnunar skiptist í þorsk, ýsu, ufsa, karfa/gullkarfa, löngu, keilu og steinbít.

Hins vegar var um að ræða 220 þorskígildistonn vegna West Seafood ehf. Tilgangur þess var að skipta út tegundum eins og hjá Hlunnum og að láta félagið veiða fyrir vinnsluna.

Í báðum tilfellum voru þessar færslur gerðar eftir skriflegri beiðni samningsaðila.“

Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs ehf segir að Sirrý ÍS 36 hafi veitt kvótann að hluta til en að hluta til hafi verið skipti á aflamarkskvóta og krókaaflamarkskvóta.

Í síðustu viku fengust þá svör í Byggðastofnun  að samningur Byggðastofnunar við West Seafood ehf., ÍS 47 ehf. og Hlunna ehf. væri í skoðun hjá stofnuninni en ekki gefnar  nánari upplýsingar um málið að svo stöddu. Málið hefur verið rætt tvívegis í bæjarráði Ísafjarðarbæjar en bókað í trúnaðarbók bæjarráðs og engar upplýsingar gefnar um efnisatriði.

DEILA