Fjölmenni í Ögurmessu

Kirkjusókn var afar góð.

Núverandi kirkja í Ögri var reist árið 1859 en kirkja mun hafa verið í Ögri frá fyrstu árum kristni á Íslandi.

Í tilefni af því fór fram guðsþjónusta í kirkjunni í tengslum við Ögurfestival og var bekkurinn þéttsetinn. Prestar voru séra Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, sóknarprestur, og séra Hjálmar Jónsson, fyrrverandi Dómkirkjuprestur.

Ögurkirkja er bændakirkja og var lengst af höfuðkirkja Ögurþinga með útkirkju á Eyri í Seyðisfirði. Þar hefur ekki verið prestssetur en margir Ögurbænda héldu svokallaða heimilispresta sem þjónuðu við kirkjuna.

Lagfæringar og endubætur hafa staðið yfir á kirkjunni og hefur Magnús Alfreðsson, trésmiður, annast þær. Sóknarnefndarformaður er Guðmundur Halldórsson frá Ögri.

Kirkjuna reisti Þuríður Þiðriksdóttir og fóstursonur hennar Hafliði Halldórsson árið 1859. Kirkjusmiðir voru Jón Jónsson, snikkari á Ísafirði, Jóhann Grundtvig, smiður á Ísafirði og Finnbogi Jónsson á Melgraseyri.

Árið 1886 stóð Jakob Rósinkarsson fyrir endurbótum á kirkjunni. Þá var settur á hana turn, látnar í hana loftsvalir, ný sæti smíðuð og hvelfing kirkjunnar máluð. Guðmundur Árnason annaðist endurbæturnar. Árið 1903 var sett bárujárn á þak kirkjunnar.

Myndir: Helgi Hjálmtýsson og Ingólfur Kjartansson.

DEILA