Fjögur samtök kæra framkvæmdaleyfi til rannsókna á Hvalárvirkjun

Hvalá. Mynd: Vesturverk.is

Landvernd, Rjúkandi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Ungir Umhverfissinnar hafa kært ákvörðun sveitastjórnar Árneshrepps um að gefa út framkvæmdaleyfi vegna fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landvernd sem barst í morgun. Þar segir að kært sé meðal annars á grundvelli þess að:

– Náttúruverndarlög eru brotin þar sem taka á efni úr stöðuvatni sem nýtur verndar og skerða á víðerni sem njóta verndar.

– Samtökin telja óheimilt að skipta skipulagi og framkvæmdum upp í hluta. Taka á ákvörðun um virkjun í einu lagi.

– Sú framkvæmd sem leyfið er veitt fyrir hefur ekki farið í gegnum rammaáætlunarferli samþykkt af Alþingi.

– Lög um umhverfismat og útgáfu framkvæmdaleyfis eru brotin þar sem ekki er tekið tillit til álits skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum sem var virkjuninni mjög óhagfellt og hluti af fyrirhugaðri efnistöku hefur ekki verið umhverfismetin

Þá segir í fréttatilkynningunni að  samtökin „hafi bent sveitastjórn Árneshrepps og Vesturverki á það áður í formlegu umsagnarferli að það umfangsmikla rask sem fara á í á óbyggðum víðernum má auðveldlega forðast ef markmiðið er að stunda rannsóknir.  Ekki hefur verið brugðist við þeim ábendingum nema með fullyrðingum um kostnað sem ekki eru studdar með gögnum.“

DEILA