Dýralæknir: leitað nýrra lausna

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun segir að leita verði nýrra leiða til þess að finna lausn á þeim vanda sem er á Vestfjörðum. Dýralæknir umdæmisins sagði upp samningi sínum og hefur látið af störfum. Matvælastofnun auglýsti tvisvar eftir dýralækni en engar umsóknir bárust.

Sigurborg segir að auk þess hafi verið reynt að spyrjast fyrir í þeirri von að finna dýralækni sem vildi taka starfið að sér en án árangurs. Sérstaklega nefndi Sigurborg að starfið þætti mjög bindandi og fólk vri ekki tilbúið til þess. „Það eru 10 samningar af þessu tagi sem MAST er með og þeir renna allir út í haust“ segir Sigurborg.

Að sögn Sigurborgar er búið að kynna málið fyrir ráðherra og hún segir að Ráðuneytið, dýralæknafélagið og Matvælastofnun þurfi í sameiningu að finna leið til lausnar.

„Það er skortur á dýralæknum á landinu. Það þarf að fara til útlanda til að læra dýralækningar og síðast þegar ég leit á þetta þá sýndist mér að aðeins um helmingur skili sér til baka frá útlöndum.“

 

DEILA