Breikkun Vesturlandsvegar: Akraneskaupstaður kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar

Bæjarráð Akraness hefur falið bæjarstjóra að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Í frétt á heimasíðu Akraneskaupstaðar segir að framkvæmdin hafi afar jákvæð samfélagsleg áhrif vegna bætts umferðaröryggis og henni  sé ætlað að taka á lífshættulegum aðstæðum sem vegfarendum er boðið upp á. Því sé óskiljanlegt  að ákvörðun Skipulagsstofnunar taki ekki mið af þeim aðstæðum. Þá segir að „Akranes og íbúar þess hafa lögvarinna hagsmuna að gæta þegar kemur að umferðaröryggi íbúa og að framkvæmdinni sé hraðað en Akraneskaupstað er umhugað um að ekki verði fleiri slys á umræddri leið.“

Ennfremur segir:

„Eftir að hafa fengið ráðgjöf lögmanna er það mat bæjarráðs Akraness að ákvörðunin sé háð verulegum annmörkum, sé byggð á röngum forsendum og sé í ósamræmi við fyrri ákvarðanir Skipulagsstofnunar og beri að ógilda.

Ekki er um að ræða nýjan veg heldur breikkun vegarins í 2+1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Land sem raskast við framkvæmdina hefur þegar orðið fyrir röskun vegna þess vegar sem nú liggur um svæðið. Ákvörðunin byggir á langsóttri lögskýringu og ekki er lagaheimild fyrir ákvörðuninni.

Rökstuðning vantar fyrir ákvörðuninni þar sem vísun í tilskipun eða dómafordæmi skortir. Þau víðtæku áhrif sem ákvörðun Skipulagsstofnunar hefur og sú breyting á framkvæmd sem virðist fyrirhuguð hjá stofnuninni krefst þess að rökstuðningur sé skýr.

Verulegt ósamræmi er við fyrri ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matskyldu sambærilegra framkvæmda og ef breyta ætti stjórnsýsluframkvæmd þá þurfi að rökstyðja það sem ekki er gert. Ósamræmi er við ákvarðanir Skipulagsstofnunar er varða t.d. endurbætur á Þingvallavegi, breytingar á Kjalvegi og breikkun Grindavíkurvegar. Óskiljanlegt er hvers vegna önnur sjónarmið eru látin ráða för við ákvörðun um matskyldu breikkunar Vesturlandsvegar. „

DEILA