Bíldudalur: 3 umsóknir um lóðir fyrir 45 íbúðir

Fram kemur í fundargerð skipulags- og umhverfisráði Vesturbyggðar að sótt hafi verið um lóðir fyrir 45 íbúðir á Bíldudal.

Hlutafélagið Bernódus ehf sótti um lóðir fyrir 30 til byggingar á ein- og tvíbýlishúsum. Umsækjandi lýsti einnig yfir áhuga á að koma að deiliskipulagsgerð fyrir svæði sem henta myndi undir fyrirhugaða íbúabyggð.

Félagið Nýjatún ehf sendi inn erindi þar sem sótt er um óstofnaðar lóðir að Lönguhlíð 16A,B og 18A. Áform umsækjenda er að byggja allt að 10 – 12, 55 m2 íbúða fjölbýlishús á tveimur hæðum.

Þriðja umsóknin var frá Hrafnshól ehf. Í erindinu er sótt um óstofnaðar lóðir að Lönguhlíð 9 og 11 til byggingar á þriggja íbúða raðhúsi, tvær 76,6m2 og ein 95m2.

Skipulagsnefndin leggur til við bæjarstjórn að lóðarútsóknirnar  frá Nýjatúni ehf og Hrafnshól ehf  verði samþykktar.

Varðandi erindi Bernódusar ehf þá fagnar Skipulags- og umhverfisráð þó erindinu enda fyrirhuguð áframhaldandi aukning í laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum með tilheyrandi íbúafjölgun. Hins vegar er á  Bíldudal er ekki á lausu svæði sem rýma myndi byggð líkt og umsækjandi sækir um. Skipulags- og umhverfisráð vísar erindinu áfram til bæjarráðs og leggur til að hafnar verði viðræður við landeigendur að ákjósanlegu byggingarlandi sem er til staðar við bæjarmörkin. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta er það land í eigu Litlu Eyrar sem er fyrir botni Bíldudagsvogar.

Sigurður Garðarsson er framkvæmdastjóri Hrafnshóla ehf. Hann segir að Nýjatún ehf sé dótturfyrirtæki þess.  Sigurður segir að fyrirtækið leiti að viðeigandi lausnum í einstökum sveitarfélögum til þess að leysa vanda sem leiðir af húsnæðisskorti. Hrafnshólar ehf er að byggja þrjár íbúðir á Reykhólum sem sveitarfélagið mun kaupa. Að sögn Sigurðar er veriða ð byggja 15 íbúðir í Vík í Mýrdal og þar eru allar seldar nema ein. Nýverið var skrifað undir samning við Blönduósbæ um byggingu á 5 íbúðum og á Sauðárkróki hefur fyrirtækið fengið úthlutað lóð til íbúðabygginga sem eru hugsaðar sem 10 ára verkefni.

Varðandi Bíldudal segir Sigurður að lóðaskortur sé verulegt vandamál og finna þurfi lausn á því ef öll byggingaráformin eigi að ná fram að ganga. Hluti af vænlegu byggingarsvæði hefur verið á snjóflóðahættusvæði, en varnargarðar sem reistir hafa verið bæta úr og opna möguleika á að nýta það.

DEILA