Listasafn Ísafjarðar: munaðarlaust safn

Út er komin merk bók, saga listasafna á Íslandi í ritstjórn Sigurjóns Baldurs Hafsteinssonar prófessors í safnafræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands.

Útgefandi er Rannsóknasetur í safnafræðum við Háskóla Íslands. Í aðfararorðum segir Sigurjón að viðfangsefni bókarinnar sé að varpa ljósi á tilurð,vöxt og starfsemi listasafna hér á landi. Í bókinni eru  greinar um 25 söfn og gerð er tilraun til þess að svara spurningunni : Hvernig hafa söfn sem sérhæfa sig í að safna list, varðveita og gera hana aðgengilega, þróast hér á landi? Segir Sigurjón að líta megi svo á að bókin sé nauðsynlegur grundvöllur fyrir frekari rannsóknum  um listasöfn.

Undirbúningur að bókinni hófst 2015 og er hún loksins komin út með mikinn fróðleik um þau söfn sem gerð er grein fyrir.  Um Listasafn Ísafjarðar skrifar Helga Þórsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða. Helga er með MA próf í menningarfræði og er auk þess menntuð í myndlist úr einum virtasta listaháskóla Parísarborgar, ásamt því að hafa lokið prófi í innanhússarkitektúr. Sem myndlistarmaður hefur hún tekið þátt í mörgum sýningum og síðar einbeitt sér að sýningarstjórnun ásamt textaskrifum um myndlist.

Helga Þórsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða.

Stofnun og saga

Helga Þórsdóttir rekur upphaf og sögu listasafnsins og gerir grein fyrir helstu þáttum í þróun safnsins.

Stofnun safnsins er miðuð við 12 febrúar 1963, en þá var formlega samþykkt skipulagasskrá fyrir gjöf þá er Elín Sigríður Halldórsdóttir, ekkja Jóns Þorkels Ólafssonar, trésmíðameistara á Ísafirði, lét eftir sig með erfðaskrá þann 13. ágúst 1958. Í erfðaskránni er stofnaður Minningarsjóður Jóns Þorkels Ólafssonar og Rögnvaldar Ólafssonar, húsameistara, bróður Jóns Þorkels. Markmið sjóðsins eru að efla menningarmál í Ísafjarðarkaupstað.

Helga telur að kaup safnsins á myndum fyrstu árin hafi verið til þess að koma upp safni eftir þekkta listamenn sem myndi sýna þróun íslenskrar myndlistar á tuttugustu öld.

Listasafn Ísafjarðar hóf sýningarhald 1966 á aldarafmæli Ísafjarðarkaupstaðar og þá var safnakostur listasafnsins sameinaður myndverkum í vörslu Byggðasafns Vestfjarða.

Sérstaklega er getið Jóhanns Gunnars Ólafssonar, sýslumanns Ísfirðinga sem hvatamanns að flestum framförum  sem urðu í menningarlífi bæjarins á sjötta og sjöunda áratugnum. Annar sem hafði mikil áhrif á þróunina er samkvæmt því fram kemur í greininni Jóhann Hinriksson, forstöðumaður Bókasafns Ísafjarðarkaupstaðar á árunum 1974-1984, sem gerði skrá yfir myndverk í eigu safnsins og stóð fyrir myndlistarviðburðum á vegum bókasafnsins. Segir í grein Helgu að sýningarhald bókasafnsins hafi undirbúið jarðveginn fyrir mikla grósku í myndlistariðkun á Ísafirði næstu tvo áratugi.

Þriðji maðurinn sem Helga Þórsdóttir nefnir til sögunnar er Jón Sigurpálsson, forstöðumaður safnsins frá 1984 til ársins 2010, sem var ráðinn sérstaklega sem safnvörður fyrir bæði Byggðasafn Vestfjarða og Listasafn Ísafjarðar. Jón er sjálfur myndlistamaður og stofnmeðlimur í  Myndlistarfélagi Ísafjarðar. Það hleypti af stað mikilli grósku í sýningarhaldi í Slunkaríki á Ísafirði og stóð það til dæmis fyrir 16 sýningum á sínu fyrsta sýningar ári 1985 og allt að því jafn mörgum árlega eftir það, Myndlistarfélagið og Listasafnið nutu góðs af starfsemi hvors annars.

Jón Sigurpálsson hóf að horfa til ísfirskra listamanna og  keypti verk m.a. eftir Jón Hróbjartsson, og Kristján Helga Magnússon. Jón setti einnig upp sýningar eftir þekktari myndlistamenn úr safneign Listasafns Ísafjarðar. Þannig hafið safnið sterka listræna stefnu undir hans stjórn.

Tímamót verða með tilkomu menningarhúsanna upp úr aldamótunum. Þá var Safnahúsið gert upp svo og Edinborgarhúsið. Með opnun Safnahússins 2003 fær Listasafnið sýningarsal til afnota og tók yfir sem aðalsýningarvettvangur myndlistar á Ísafirði, þar sem Myndlistarfélagið hafði og hefur þungar skuldbindingar vegna endurgerðar Edinborgarhússins.

 

Fagleg afturför

Síðasti kaflinn í sögu Listasafns Ísafjarðar hefst 2010 með þeirri ákvörðun bæjaryfirvalda á Ísafirði að breyta skipuriti menningarmála á Ísafirði. Settur var forstöðumaður sem var yfirmaður allra stofnana sem hýstar eru innan veggja Safnahússins. Jón Sigurpálsson leit svo á að hann hefði verið settur af sem forstöðumaður og listrænn stjórnandi Listasafns Ísafjarðar án þess að honum hafi verið gert það kunnugt fyrr en eftir að skipuritinu var breytt.  Segir í greininni að breytingarnar hafi mælst misvel fyrir og óttast sé að sjálfstæði stofnana til öflugrar menningarstarfsemi hafi verið skert.

Það er mat greinarhöfundar að framtak og útsjónarsemi  Jóns Hinrikssonar og Jóns Sigurpálssonar hafi haldið lífi í Listasafni Ísafjarðar þar sem þeir hafi haft skilning á verðmæti listaverkaeignar safnsins. Hún segir að mikilvægt sé að muna að fjármagn, sérþekking á list og listtengdri starfsemi sé grundvallaratriði í vexti og viðgangi listasafnsins og njóti þess ekki sé hætta á að fjöreggið, safnaeign listasafnsins, verði ekki til þess að ýta undir liststarfsemi sem skyldi.

Í samtali við Bæjarins besta segir Helga að í raun verði Listasafn Ísafjarðar ekki listasafn fyrr en Jón Sigurpálsson komi að því. Það sé hans verk að gera þeim Jóni Hróbjartssyni og Kristjáni Helga Magnússyni verðug skil sem listamönnum og koma þeim á framfæri, einnig hafi Jón sem fagmaður haft það tengslanet sem þarf til þess að halda safni gangandi fyrir allt að því ekkert fjármagn. Í tíð Jóns sé safnið að endurspegla staðinn sinn og setja ísfirska listamenn í samhengi við aðra listamenn; það hafi verið listræn stjórn við safnið.

Helga segir að tilgangur með Listasafni sé að spegla menningu samfélaga og að safn þurfi listræna sýningarstjórn. Hún telur að það hafi ekki verið nein listræn stjórn síðustu ár og stefna bæjarstjórnar frá 2010 jafngildi því að hafa ekki listasafn. Kannski má segja að grein Helgu Þórsdóttur segi lesandanum að safnið sé munaðarlaust, faglega séð.

Bókin er hinn eigulegasti gripur og fæst hjá Byggðasafni Vestfjarða.

-k

 

 

DEILA