Ísfirðingar á Landsmóti UMFÍ 50+ á Austurlandi

Meðal keppenda á Landsmóti UMFÍ fyrir 50 ára og eldri, sem fram fer í Neskaupstað um helgina, er vaskur hópur Ísfirðinga. Þau eru komin nokkuð langt að heiman og ákváðu fyrst þau hefðu lagt land undir fót að til Færeyja í leiðinni.

„Sá sem var formaður á undan mér, Björn Helgason, þjálfaði fyrir mörgum árum knattspyrnu í Færeyjum. Hann talaði alltaf vel um eyjarnar. Svo vorum við með fund rétt fyrir jól og þar dettur upp úr mér að fyrst við séum farin svona austur á land þá gerum við meira úr ferðinni og förum til Færeyja.“

Þetta segir Guðný Sigríður Þórðardóttir, formaður Kubbs, íþróttafélags eldri borgara í Ísafjarðarbæ. Frá félaginu er á annan tug keppenda sem voru meðal þeirra sem skráðir voru til keppni í fyrstu greininni, boccia, sem hófst í íþróttahúsinu í Neskaupstað klukkan níu í morgun.

Ísfirðingarnir komu beint til Norðfjarðar frá Færeyjum í gærmorgun en þeir fóru út með Norrænu á vegum Tanna Travel með Svein Sigurbjarnarson sem bílstjóra og fararstjóra.

„Það voru góðar undirtektir við hugmyndina strax og við töluðum við Tanna Travel því við höfðum frétt að þar væri svo skemmtilegur fararstjóri. Við fengum tilboð upp á þrjár blaðsíður um allt sem við gætum gert og það voru allir jákvæðir.

Þetta var rosalega skemmtileg ferð. Við keyrðum út á ystu nes og nærri allt sem hægt var að keyra. Við fengum líka yndislegt veður. Fyrsta daginn var rigningarsuddi og okkur leist ekki á blikuna en svo birti til og veðrið var næstum jafn gott og hér í gær. Það var heitt að vera í rútunni en bílstjórinn var duglegur að stoppa og leyfa okkur að fara út.“

Landsmót UMFÍ fyrir 50 ára og eldri var fyrst haldið árið 2011 en Ísfirðingarnir hafa mætt á hvert mót frá 2012. „Við kynnumst strax fólk í gegnum mótin, maður hittir alltaf ný andlit og svo þessi gömlu aftur því sumir hafa sótt mótin jafn lengi og við. Síðan er líka gaman að fara saman þegar maður er búinn að æfa allan veturinn. Við spilum þrisvar í viku og fáum okkur stundum kaffi á eftir.“

birtist fyrst í vikublaðinu Austurglugginn og vefmiðlinum Austurfrétt.

Höfundur: Gunnar Gunnarsson.

Birt með leyfi höfundar.

DEILA