Hvalárvirkjun: rannsóknirnar færast til 2020

Birna Lárusdóttir, upplýsingarfulltrúi Vesturverks ehf segir að „nú þegar framkvæmdaleyfi vegna jarðvegs- og bergrannsókna er loks í höfn leggjum við allt kapp á að geta hafið undirbúning fyrir þær rannsóknir strax í sumar. Sjálfar rannsóknirnar, með kjarnaborun, fara fram sumarið 2020.

Í sumar er ætlunin að koma brú yfir Hvalá, undirbúa svæði fyrir starfsmannabúðir, undirbúa vinnuvegi á láglendi og nauðsynleg efnistökusvæði. Einnig verður hafist handa við að lagfæra veginn úr Norðurfirði í Ófeigsfjörð svo hann verði vel fær þeim vinnuvélum sem þurfa að fara um svæðið. VesturVerk hefur samið við Vegagerðina um yfirtöku á þessum hluta vegarins á meðan á framkvæmdum vegna Hvalárvirkjunar stendur.

Þetta er það sem hægt er að segja um næstu skref að sinni.

Við erum í viðræðum við verktaka sem vonandi geta hafist handa hið allra fyrsta en svo mun auðvitað veður ráða mestu um það hversu mikið verður hægt að vinna í sumar og haust.“

DEILA