Framsókn: Landsvirkjun verði í eigu þjóðarinnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins sagði í ræðu sinni á miðstjórnarfundi flokksins í gær að:

„Við skulum því einbeita okkur að hlutum sem skipta máli fyrir Íslendinga sem er að tryggja það að Landsvirkjun sé í eigu þjóðarinnar en ekki einkaaðila og berjast fyrir því að ein gjaldskrá sé fyrir allt landið þegar kemur að dreifingu rafmagns sem myndi lækka reikninga landsbyggðarinnar verulega.“

Orkupakkinn þýðir betra eftirlit

Um Orkupakka 3 sagði Sigurður Ingi að Þegar orkupakki númer þrjú verður samþykktur á Alþingi breyttist ekkert nema að eftirlit Orkustofnunar verður betra og hagsmunir neytenda betur tryggðir.

Formaður Framsóknarflokksins sagði að „fólk verður að átta sig á því að með innleiðingu orkupakka eitt og tvö er orka á Íslandi markaðsvara. Það er komin samkeppni í orkumálum á Íslandi fyrir löngu.“

„Frumvarp sem liggur fyrir Alþingi varðandi það að íslenska þingið verði að samþykkja lagningu sæstrengs er stórt skref, nýtt skref, því eins og staðan er í dag kæmi slíkt mál ekki inn á borð þingsins. Og það er heldur ekki þannig að hægt sé að leggja sæstreng inn í landið án þess að Íslendingar komi þar að, skipulagsyfirvöld og sveitarstjórnir, orkufyrirtækin. Það er ekki hægt frekar en að Vegagerðin okkar ákveði að leggja göng í gegnum frönsku Alpana í trássi við vilja franskra yfirvalda.“

hráa kjötið – úr vörn í sókn

Um innfluting á hráu kjötu sagði ráðherrann að ísland hafi verið í alvarlegri stöðu þar sem einungis voru gerðir fyrirvarar sem komu í veg fyrir innflutning á lifandi dýrum og erfðaefni.

„Og hvað gerðum við í Framsókn í þeirri stöðu? Við hófum sókn og börðumst fyrir því að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að banna dreifingu á matvælum sem innihalda tilgreindar sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þessi sókn okkar snýst um sérstöðu íslensks landbúnaðar sem skapar einstaka stöðu okkar hvað varðar lýðheilsu en sýklalyfjaónæmi er ásamt loftslagsbreytingum helsta ógn við líf og heilsu manna og dýra í heiminum. Í þessu máli sýndum við svo ekki verður um villst að við erum framsækinn og framsýnn flokkur.“

 

DEILA