Fersk og örugg matvæli

Við erum það sem við borðum. Fyrir tíu árum gerðumst við aðilar að matvælalöggjöf EES. Tilgangur matvælalöggjafar EES snýr að því að auka gæði matvæla og bæta stöðu neytenda. Við gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og í þeirri stöðu eiga neytendur rétt á því að sambærilegar kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla.

Öryggi neytenda tryggt

Atvinnuveganefnd hefur afgreitt út úr nefnd frumvarp á reglum um innflutningi á ferskum matvælum. Þingflokkur Framsóknarflokksins setti fyrirvara við frumvarpið í vetur um að sömu gæðakröfur verði gerðar til innfluttra matvæla frá Evrópska efnahagssvæðinu og gerðar eru til íslenskrar matvælaframleiðslu og ennfremur að lýðheilsa beri ekki skaða af innflutningi sýktra matvæla.

Framsóknarflokkurinn hefur í vetur tekið sér stöðu og verið óhræddur við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Þessar áhyggjur eru ekki gripnar úr lausu lofti. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag.

Undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur.

Sú samvinna sem var viðhöfð inn í atvinnuveganefnd skilaði niðurstöðu sem rímar vel við landbúnaðarkafla í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Auk þess boðar ríkistjórnin metnaðarfull áform í loftlagsmálum.

Aðgerðaráætlun í 17 liðum

Afgreiðsla nefndarinnar skilaði þingsályktunartillögu sem felur í sér 17. aðgerðaráætlanir um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna hér á landi. Þar kveður á um bann við dreifingu kjöts sem inniheldur kamfýlobakter og salmonellu og átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi á grundvelli lýðheilsusjónarmiða sem leiða mun til banns á dreifingu matvæla sem innhéldi slíkt. Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á að endurskoða þurfi tollasamning landbúnaðrafurða þar sem forsendubrestur verður við úrsögn Breta úr ESB. Því hefur nefndin komið skýrt til skila við ríkisstjórnina að vinna að greiningu að áhrifum samningsins á íslenskan landbúnað og neytendur. Komi í ljós að forsendubrestur hafi orðið vegna áðurnefndra atriða er því beint til ríkisstjórnarinnar að endurskoða tollasamninginn um landbúnaðarvörur.

Liður í aðgerðum í loftlagsmálum.

Kolefnisfótspor og önnur umhverfisáhrif íslensks grænmetis og annarra afurða garðyrkjunnar eru miklu minni en þess innflutta. Það á einnig við í innlendri framleiðslu á kjöti. Því er í ljósi fæðuöryggis, umhverfisþátta og orkunýtingar skynsamlegt að hvetja til meiri innlendrar framleiðslu.

Það er okkar hlutverk að hlúa að því góða og verja það sem gott er í samvinnu við alþjóðasamfélagið. Leggjum okkar að mörkum í átt að umhverfisvænu og heilbrigðari lífi.

Halla Signý Kristjánsdóttir

7. þingmaður NV kjördæmis

DEILA