Dýralæknir Vestfjörðum – engin umsókn

Matvælastofnun hefur auglýst án árangurs eftir dýralækni til að sinna þjónustusvæði 3, sem nær frá Vesturbyggð til Ísafjarðardjúps. Frestur til að sækja um var framlengdur en einnig án árangurs. Um er að ræða verktakasamning og hefur Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, dýralænir á Ísafirði gengt starfinu um árabil. Hún sagði upp samningnum og hættir störfum 1. júlí næstkomandi.

Hjalti Árnason, fræðslustjóri varð fyrir svörum hjá Matvælastofnun í fjarveru Sigurborgar Daðadóttur yfirdýralæknis. Hann sagði að staðan nú væri sú að þjónustusamningurinn á Vestfjörðum hafi verið  auglýstur og auglýsingin framlengd en enginn umsókn hefur borist.

Matvælastofnun hefur í framhaldinu leitað til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem setur reglurnar sem um þjónustusamninga gilda og er málið til skoðunar en niðurstaða liggur ekki fyrir.

Þjónustusvæðið á Vestfjörðum er að því leytinu frábrugðið öðrum þjónustusvæðum á landinu að erfitt er að fá afleysingu eða aðstoð frá öðrum þjónustusvæðum vegna fjarlægðar og samkvæmt heimildum Bæjains besta veldur það meira álagi á dýralækninn sem sinnir þjónustusvæðinu. Svar Matvælastofnunar bendir til þess að verið sé að skoða breytingar sem lúta að þessu atriði.

 

DEILA