Bátakirkjugarður

Útvarpsklukkan vakti mig í morgun, 24. júní, eins og flesta aðra morgna. Sigmar á rás 2 tilkynnti að von væri á viðtali vestan af fjörðum við Sigurð Hreinsson bæjarfulltrúa á Ísafirði um hugmynd að bátakirkjugarði í einhverjum firði Djúpsins. Það kom einnig fram að tilurð viðtalsins var grein sem birtist í Mannlífi fyrir skemmstu. Ég fann þessa grein á netinu sem var safaríkari en þetta stutta og varfærnislega viðtal við bæjarfulltrúann og þar kom einnig fram að hvatinn að þessum hugleiðingum Sigurðar er María Júlía sem liggur hnípin einn hafnarkantinn í Ísafjarðarhöfn. Það kom eitt og annað fram í viðtalinu sem vert er að huga að. Sigurður sagði Maríu Júlíu vera um 50 ára gamla, kannski af háttvísi herramannsins, en hið sanna er að skipið verður 70 ára á næsta ári. Í 3. grein laga um menningarminjar sem fjalla um fornar minjar segir m.a.: Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa og njóta friðunar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands.

María Júlía hefur þegið ýmsa styrki frá því hún kom í fang safnanna tveggja, þ.e. safnið á Hnjóti og Byggðasafns Vestfjarða árið 2003. Forsaga þess er að þá um sumarið barst eigendum skipsins, Þórsbergi á Tálknafirði, kauptilboð frá Suður Afríku. Þegar það spurðist út til safnanna var ákveðið að sameinast og freista þess að ganga inn í kauptilboðið með einhverjum ráðum og tryggja að skipið færi ekki úr landi, enda um að ræða skip með mikið og einstakt sögulegt gildi að mati beggja. Með hjálp þingmanna úr kjördæminu var gert heiðursmannasamkomulag við eigendur skipsins um að söfnin fengju aðstoð þess opinbera við að ganga inn í kauptilboðið. Þannig var komið í veg fyrir sölu skipsins úr landi og svigrúm skapað til að kanna rekstrargrundvöll þess og stofnuðu söfnin áhugamannafélag um hana árið 2004, sem er opið félag fyrir alla sem áhuga hafa á framgangi verkefnisins. Við afhendingu 14. júlí 2003, við Tálknarfjarðarhöfn, lýsti ráðherra því yfir að siglingamálaráðuneytið væri reiðubúið til að leggja málinu lið þegar mótaðar hugmyndir um kostnað og notkun lægju fyrir eins og sjá má á heimasíðu ráðuneytisins.

Andvaraleysi ríkir gagnvart alþýðumenningu þjóðarinnar og menningarpólitískt taktleysi. Birtingarmynd þess er hvað skýrust í þeim tilraunum sem gerðar hafa verið til að skapa fjárhagslegan grundvöll fyrir varðveislu báta með opinberu fjármagni. Atvinnugrein sem fylgt hefur þjóðinni frá örófi. Jóhann Ársælsson skipasmiður og þingmaður Vesturlands um tíma var einn ötulasti baráttumaður fyrir verndun báta á meðan hans naut við á þingi. Með Jóhanni, lögðu veturinn 1999–2000, fimm þingmenn allra flokka fram frumvarp til laga um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins fengi það viðbótarhlutverk að veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa og báta. Tillagan var samþykkt með breytingum af Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum. Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki m.a. þátt í. Ekkert varð af þessu og málið sofnaði.

Aftur var reynt árið 2005 með karpi þegar þróunarsjóður sjávarútvegsins var lagður niður og Jóhann flutti eftirminninlega ræðu bátum til verndar. Og svo aftur 2011 með þverpólitískri tillögu til þingsályktunar um varðveislu og viðhald gamalla skipa og báta en ekkert gerðist og viðleitnin dagaði uppi eina ferðina enn.

Það eru hins vegar söfnin í kringum landið sem hafa staðið vaktina. Bátar í eigu þeirra eru um 190. Þetta eru bátar af ýmsum gerðum og flestir þeirra súðbyrðingar en ekki margir sem ná þeirri vegtyllu að vera forngripur þ.e. smíðaðir fyrir 1950. Ástandið er ekki óáþekkt því sem

var í húsvernd áður en húsafriðunarsjóður varð til upp úr 1970. Hægt er að ímynda sér hvernig umhorfs væri í byggðum landsins án hans og er þá nærtækt að horfa til Neðstakaupstaðar á Ísafirði. Söfn víðsvegar um landið hafa gengið þá þrautargöngu að fá áheyrn ráðamanna um þennan málaflokk um árabil með engum árangri.

Það væri nær að að kjörnir pólitískir fulltrúar um land allt girði sig í brók gagnvart menningarmálum almennt og létu svo lítið að tala við fagfólk um hugleiðingar sínar. Ég deili algjörlega áhyggjum mínum með Sigurði varðandi Maríu Júlíu og óttast að en einn harmleikur í menningarsögu okkur sé yfirvofandi en ég er efins um að bátakirkjugarður í fögrum firði Ísafjarðadjúps réttlæti andvara- og metnaðarleysi okkar í þessum málum.

Jón Sigurpálsson

DEILA