Arnarlax missir 4.500 tonna umsókn

Bergþór Ólason, alþm.

Ný lög um fiskeldi voru samþykkt í gærkvöldi með 32 atkvæðum og 24 viðstaddir þingmenn greiddu ekki atkvæði.  Á lokasprettinum var helst tekist á um meðhöndlun á þeim umsóknum um fiskeldi í sjó sem eru óafgreiddar hjá stofnunum ríkisins og munu að óbreyttu falla niður við gildistöku laganna. Meirihluti nefndarinnar lagði fram breytingartillögu við þriðju umræðu sem fjölgaði þeim umsóknum sem munu fá áframhaldandi meðferð samkvæmt eldri lagaákvæðum og fækkaði þeim sem féllu niður.  Það skiptir fyrirtækin miklu máli þar sem í nýju lögunum er verulega önnur ákvæði svo sem þau að leyfin verða boðin upp.

Arnarlax skaðast

Það er einkum Arnarlax sem mun fara illa út úr lagasetningunni, en önnur fyrirtæki sleppa betur frá hvað varðar fyrirliggjandi umsóknir.

Umsókn Arnarlax um 4.500 tonna stækkun á þegar fengu 10.000 tonna leyfi í Arnarfirði mun, samkvæmt heimildum blaðsins, falla niður. Það hefur í för með sér að Arnarlax þarf að sækja um 4.500 tonna stækkunina að nýju og byrja á öllu ferlinu frá grunni, þrátt fyrir að vera stækkun á þegar fengnu leyfi og þrátt fyrir að fyrir liggi umhverfismat og annað sem krafist er. Slíkt kallar á að ráðstafa bæði tíma og peningum í að gera aftur það sem þegar hefur verið gert en mesta breytingin er að leyfið verður boðið upp og því óvíst að umsækjandinn fá það.

Þá kemur upp sú staða að tvö fyrirtæki geta verið með eldi á sama svæði hvort innan um annað sem kemur til með að valda ákveðnum vanda.

Berþór Ólason, alþm Miðflokksins lagði til að umsókn um  stækkun á þegar fengu leyfi færi eftir eldri lögum og yrði því undanþegin uppboðsákvæðinu en sú tillaga var felld með 49 atkvæðum gegn 7.

Bergþór sagði við Bæjarins besta að honum sýndist að áhrif nýju laganna yrðu þau að veikasta landssvæðið, það er sunnanverðir Vestfirðir, kæmu verst út, hvað varðar áhrif laganna á fyrirliggjandi umsóknir.

Ísafjarðardjúpið og Austfirðir

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta heldur umsókn Háafells í Hnífsdal því að verða meðhöndluð samkvæmt eldri lögum en umsóknir Arctic Fish og Arnarlax um 10.000 tonna eldi hvor um sig falla niður. Þá munu umsóknir um 8.000 tonna eldi á Austfjörðum einnig falla niður.

Jökulfirðir: fiskeldi ekki bannað

Fjórir flokkar lögðu til að óheimilt yrði að heimila nýtingu Jökulfjarða í Ísafjarðardjúpi undir fiskeldi. Það voru Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins en sú tillaga var felld með 16 atkvæðum gegn 34 atkvæða þingmanna Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Miðflokksins. Er því niðurstaðan að fellt var að banna fiskeldi þar.

 

DEILA