Ari Trausti og Lilja Rafney: styðja Þ-H leið í Reykhólahreppi

Ari Trausti Guðmundsson, alþm á fundinum á Hótel Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Fjórir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs héldu opinn stjórnmálafund á Hótel Ísafirði á laugardaginn.  Það voru þau Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppe og Ólafur Gunnarsson.

Þingmennirnir voru spurðir um afstöðu sína til veglínu í Gufudalssveit vegna Vestfjarðavegar 60, en fyrir liggur að sveitarstjórn hefur samþykkt svokallaða þ-H leið og auglýst nauðsynlegar aðalskipulagsbreytingar svo unnt verði að veita framkvæmdaleyfi fyrir  nýjum rúmlega 20 km löngum vegi með nokkrum brúm.

Lilja Rafney Magnúsdóttir svaraði því til að ekki hefði verið gefin út af hálfu flokksins samþykkt um málið, en hennar vilji væri sá að hún styddi framkomna tillögu.

Ari Trausti Guðmundsson sagðist ekki hafa neinu við svör Lilju Rafneyjar að bæta. Hann benti þó á  að það væru 60 skógar skráðir á Vestfjörðum og Teigsskógur væri aðeins sá fjórtándi að stærð.

Kolbeinn Óttarson Proppe og Ólafur Gunnarsson  tjáðu sig ekki um spurninguna.

DEILA