Aðalfundur Vesturferða í gær

Salvar Baldursson, Vigur er stjórnarformaður Vesturferða. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Aðalfundur Vesturferða ehf var haldinn á Ísafirði í gær. Sú breyting varð á stjórn félagsins á árinu að Daníel Jakobsson sagði sig úr stjórninni og Hafsteinn Ingólfsson kom í hans stað. Stjórnin var endurkosin óbreytt og hana skipa Salvar Baldursson, Keran Stueland Ólason, Hafsteinn Ingólfsson, Arinbjörn Bernharðsson og Sigríður Ó. Kristjánsdóttir. Varamenn voru kjörnir Sigurður Arnfjörð og Þórdís Sif Sigurðardóttir. Stjórnin skipti rmeð sér verkum en Salvar Baldursson var stjórnarformaður á síðasta ári. Framkvæmdastjóri er Linda Björk Pálsdóttir.

Stærstu hluthafar í Vesturferðum ehf eru Ferðamálasamtök Vestfjarða með 24,23%, Hvetjandi eignarhaldsfélag með 9,68% og Landsbankinn hf, sem á 8,47%.

 

Á fundinum voru ársreikningar afgreiddir og lögð fram skýrsla stjórnar.

Rekstrartap varð á árinu 2018 upp á 8 milljónir króna sem er það sama og árið áður. Tekjur urðu 234 milljónir króna og rekstrarkostnaður 240 milljónir króna. Eigið fé er jákvætt um tæpar 3 milljónir króna. Fram kom í máli framkvæmdastjóra og stjórnarformanns að vonir standa til þess að afkoman verði jákvæð á þessu ári og mátu þau horfurnar á ári ekki lakari en í fyrra.  Fjöldi skemmtiferðaskipa er svipaður og í fyrra og hefur það góð áhrif á afkomu ferðaþjónustunnar og betri en ætla mætti miðað við samdráttarspár á landsvísu.

DEILA