Vestfirðir: bestir fyrir hjólandi

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbirgðisstofnunar Vestfjarða.

Það eru væntanlega fréttir fyrir marga, en Vestfirðir eru höfuðstaður hjólreiða og göngu. Í þremur rannsóknum í röð—2012, 2016 og 2017—voru Vestfirðingar marktækt líklegri en íbúar annarra landshluta til að ganga eða hjóla til vinnu þrisvar eða oftar í viku ( 1 ). Þetta segja lýðheilsuvísar Embættis landlæknis, sjá mynd 1.

 

Lýðheilsuvísarnir, sem eru áhugaverðir fyrir þau fjölbreyttu gögn sem undir þá heyra, greina landið niður eftir heilbrigðisumdæmum. Umdæmið er það sama og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða nær yfir, en þar er ég forstjóri. Málið er mér því bæði skylt sem áhugamanni um hjólreiðar, sem forstjóra stofnunar sem hefur með heilsu og heilbrigði að gera.

 

Væntanlega er mörgu hér að þakka en stærst vegur sennilega að lítil þorp á flötum eyrum henta prýðilega til þess að skilja bílinn eftir heima. Vegalengdir eru stuttar. Snjómokstur og viðhald á göngustígum er víðast með ágætum. Þá hefur verið staðið vel að gerð stíga. Hér má nefna stíginn sem liggur frá Holtahverfi alla leið út í Hnífsdal og nýjustu viðbótina í Fjarðarstrætinu. Auk þess er í Bolungarvík stígur út á golfvöll, og í Tálknafirði tengir stígur bæinn við sundlaugina og skólann. Við eigum að vera stolt af þessu.

 

Hér fylgja nokkrar tillögur um það hvernig sveitarfélögin fimm í umdæminu—Ísafjarðarbær, Vesturbyggð, Bolungarvík, Tálknafjörður og Súðavík—geta gert enn betur. Ég beini sjónum mínum helst að hjólreiðum, en þar tel ég nokkrar litlar breytingar geti fært hluti til betri vegar.

 

  1. Gera hjólreiðaáætlun

Ekkert sveitarfélag utan Reykjavíkur hefur gert sérstaka hjólreiðastefnu eða áætlun það ég veit. Slík stefna getur tekið á málum eins og uppbyggingu innviða, þjálfun skólabarna og hvötum fyrir atvinnulífið og allan þorra almennings til að hafa reiðhjól sem hluta af hversdeginum. Markmið um mokstur og viðhald þurfa einnig að vera í slíkri áætlun. Slík stefnumörkun getur verið þungt eða létt verk eftir því hversu ítarleg hún á að vera, og getur verið annaðhvort á vettvangi hvers sveitarfélags fyrir sig eða á vettvangi Vestfjarðastofu.

 

  1. Bætt aðstaða: ódýri hlutinn

Vestfirðir henta mjög vel fyrir auknar hjólreiðar og umbætur kosta lítið. Þar sem umferð er lítil þarf ekki sérstaka hjólastíga, en oft geta bættar merkingar gert mikið gagn. Þannig bæta svokallaðir hjólavísar (myndir af hjólum og örvar, sjá mynd 2, sbr. bls 18 hér) ( 2 )  öryggi hjólandi og undirstrika fyrir vegfarendum að vegurinn er sameign. Ég er hér sérstaklega með í huga Seljalandsveg á Ísafirði, gegnum Bæjarbrekkuna niður fyrir hringtorg, og Aðalstrætin á Þingeyri, Patreksfirði og Bolungarvík. Dalbrautin á Bíldudal mætti einnig fá svona merkingar, eins og ég hef bent bæjaryfirvöldum í Vesturbyggð á í tengslum við vinnu við að auka umferðaröryggi þar í bæ ( 3 ). Strandgatan á Tálknafirði yrði einnig betri við slíkar merkingar. Þá mættu vegmerkingar í Engidal í Skutulsfirði endurspegla betur hlutverk svæðisins til útivistar.

 

Næsta skref í merkingum væri að leyfa hjólreiðar bæði upp og niður Hafnarstræti á Ísafirði milli hringtorgsins og Hamraborgar. Þetta þyrfti að merkja vel, mögulega með grænni yfirborðsmálningu hluta úr leið, einkum framhjá gatnamótum. Samhliða þyrfti að hugsa hvernig hjólandi upp Hafnarstrætið eiga að komast upp fram hjá kirkjunni; það er bagalegt hvernig hjólandi og gangandi lenda í hraðahindrun yfir Sólgötu á meðan bílarnir keyra hættulega hratt framhjá. Sjá mynd 3.

 

Í Hafnarstrætinu á Ísafirði er talsverð umferð. Í flestum einstefnugötum er umferðin hinsvegar svo lítil að þar er sjálfsagt að leyfa hjólreiðar í báðar áttir án nokkurra breytinga eða merkinga. Ég tel því rakið að sveitarfélögin kaupi eins og eina magnpakkningu af merkinu „nema hjólandi“, sem setja ætti undir langflest „innakstur bannaður“-skilti hringinn í kringum kjálkann. Fyrsta pöntun má vera sirka þrjátíu skilti.

 

  1. Bætt aðstaða: hlutinn sem kostar

Aðrar úrbætur kosta meira. Þannig er löngu tímabært að klára hjólastíginn framhjá Holtahverfi og fyrir Hafrafell og tengja þannig Hnífsdal við Engidal. Þessar úrbætur eru meðal úrbóta í umferðaröryggisáætlun bæjarins frá 2013 ( 4 ). Súðvíkingar ættu að fá göngu- og hjólastíg sem tengir gamla og nýja bæinn, eins og óskað var eftir til dæmis á íbúðaþingi í nóvember 2017 ( 5 ) , og Tálknfirðingar myndu fagna betri aðstöðu meðfram Strandgötunni.

 

Allir skólar og stærri vinnustaðir ættu að bjóða yfirbyggða hjólageymslu, og skoða þarf hvort ekki sé heppilegt að yfirbyggðar geymslur séu við stoppistöðvar almenningssamgangna.

 

Það þarf ekki mikið

Einn af stóru kostunum við búsetu á Vestfjörðum er að börn öðlast meira sjálfstæði. Þau geta komið sér sjálf milli heimilis, skóla og frístundastarfs. Aukið vægi hjólreiða og bætt aðstaða stuðlar enn frekar að sjálfstæði þeirra, og frelsi foreldra frá skutli.

 

Margt sem ég tel hér upp eru ódýrar breytingar sem hægt er að fara í smám saman. Saman undirstrika aðgerðir í þessum málum vilja sveitarfélaga til að stuðla að bættri lýðheilsu, bættu fjölskyldulífi, ódýrari lífstíl og umhverfisvernd.

 

Hjólum í vinnuna

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er stærsti einstaki vinnustaður á svæðinu. Við viljum gera vel í þessum málum. Margir starfsmenn nýta nú þegar virka ferðamáta.

 

Við tökum því þátt í átaki ÍSÍ, Hjólum í vinnuna, sem haldið er 8.-28. maí 2019. Átakið, sem hófst árið 2003 hefur að markmiði að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.

 

Vonandi taka sem flestar stofnanir og fyrirtæki þátt í verkefninu og sem flestir starfsmenn. Þannig sýnum við að Vestfirðir eru bestir fyrir hjólandi.

Mynd 3: Grænn litur hentar þegar hjólastígur fer gegn einstefnu yfir gatnamót, en ætti að vera óþarfur á stærstum hluta leiðarinnar. Hér er græni liturinn einungis sýndur til að sýna mögulega legu hjólastígs og færni höfundar í myndvinnslu.

Mynd 4: Höfundur á frábærum hjóla- og göngustígnum í Króknum á Ísafirði. Mynd: Ágúst Atlason

Tilvísanir:

  1. https://app.powerbi.com/view?r=eyJrIjoiYjU4ZTE3ODAtZTlkOC00ZmFjLWJkMzYtMTc2YmU1OTE1MjY2IiwidCI6ImVhOGE3OTJhLTExY2EtNDJmOS04ZmZjLWIwZTAzNmFjYTE2YyIsImMiOjh9&pageName=ReportSection9322814266422718ebc1
  2. http://www.ssh.is/images/stories/frettir/Honnun_fyrir_reidhjol_leidbeiningar_drog_01032018.m.pdf
  3. https://vesturbyggd.is/stjornsysla/baejarstjorn-og-nefndir/fundargerdir/malsnumer/1710023
  4. https://www.isafjordur.is/static/files/Umferdaroryggi/umferdaroryggisaaetlun_2013.pdf
  5. http://www.sudavik.is/stjornsysla/utgefid_efni/skra/902/
DEILA