Verðum að geta lifað af laununum

H´lfdán Bjarki Hálfdánsson. Mynd :RUV.

Heil og sæl kæru bræður og systur í baráttunni og til hamingju með
daginn.

Á degi sem þessum er freistandi og eðlilegt að horfa dreymnum augum til
fortíðar, sérstaklega þegar maður býr í sögufrægu útgerðarveldi eins og
hér á Ísafirði. Það er eðlilegt að gráta horfna tíma, tíma þegar
hlutirnir voru svo miklu einfaldari og eðlilegri. Sumir hér inni líta
eflaust með söknuði til framboðsfundanna í Alþýðuhúsinu, en aðrir sakna
þess að kaupa sveitasmjörið af Örnólfi í Dokkunni. Sjálfur sé ég í
fortíðarbláma þegar ég lék mér í ruslahaugunum á Suðurtanga. Margir líta
með söknuði til þess tíma þegar verkalýðsleiðtogar höfðu bein í nefinu,
börðu í borðið og sögðu hingað og ekki lengra. Það er álíka eðlilegt að
loka augunum fyrir því sem þó hefur breyst til batnaðar frá þessum tíma.
Til dæmis eru ekki lengur opnir ruslahaugar á Suðurtanga þar sem börn
eru að leik. Og þökk sé þessum verkalýðsleiðtogum fortíðar, og þó
sérstaklega baráttu og fórnum verkafólks í gegnum tíðina, þá hefur náðst
mikill árangur í lífsgæðaaukningu almennings.

Vissulega er mikið verk óunnið, en nú er komið að okkur að finna okkar
eigin aðferðir í þeirri baráttu. Við sláum ekki garðinn okkar með orfi
og ljá bara af því að langafi var svo svakalega flinkur í því, og að
sama skapi getum við ekki ætlast til þess að meðöl forvera okkar í
verkalýðsforystunni muni endilega virka í þeirri baráttu sem við eigum
nú í. Við verðum að finna okkar eigin aðferðir, og okkar eigin markmið.

Að því sögðu er eitt mikilvægara en allt annað og má aldrei gleymast.
Við sem erum í forystu stéttabaráttu á Íslandi, hvort sem það er innan
BSRB, ASÍ, BHM, KÍ, Læknafélagsins, Verkfræðingafélagsins eða hvað sem
er, við höfum og munum um ókomna tíð rífast um það hvernig ákveðnir
hópar í þjóðfélaginu eiga að raðast í launastigann. En við hljótum þó
öll að geta verið sammála um eitt: Það verður engin sátt í þessu landi á
meðan hluti þjóðarinnar getur ekki lifað af sínum launum. Byrjum á að
leysa það risavaxna vandamál í sameiningu, og í framhaldinu getum við
þráttað um það hvort skiptir meira máli; sömu laun fyrir sömu vinnu eða
að menntun sé metin til launa. Leysum fyrst vanda fólks sem kvíðir
hverjum einustu mánaðamótum og getur hæglega lent í þeirri stöðu að
þurfa að velja á milli þess að borga skólamötuneyti barnanna eða
dægradvölina.

Að einu leyti sakna ég í fullri alvöru liðinnar tíðar. Ég held að það sé
fullljóst að hér áður fyrr var einstaklingshyggjan ekki eins ráðandi og
hún er í dag. Kannski var það útaf óblíðri náttúru eða ótta við æðri
máttarvöld, en einu sinni áttuðu allir sig á því að þú lifir ekki í
tómarúmi með þig og þína allra nánustu. Ef við í þessu samfélagi pössum
ekki upp á hvert annað, þá þolum við illa utanaðkomandi áföll. Og
eignafólk þess tíma, kannski ekki allt en flest þeirra, áttaði sig á því
að þau lifðu og hrærðust í samfélagi. Og samfélagið skipti þau máli.

Þessi hugsunarháttur varð til þess að velferðarkerfið var byggt upp. Þú
lagðir inn eftir getu og tókst út eftir þörfum. En nú finnst manni
stundum eins og dæmið hafi snúist við. Þú leggur inn eftir þörfum, og
ekki krónu meira, og tekur út eftir getu. Það er með ólíkindum hversu
mikið sumir leggja á sig til að lækka sína skattbyrði. Þarna er ég
sérstaklega að tala um þá sem eru með það háar tekjur að venjulegt fólk
skilur ekki hvernig í veröldinni er hægt að eyða þessu öllu. Hvaða máli
skiptir það fyrir þetta fólk hvort fjármagnstekjuskatturinn er 20 eða 22
prósent?

En öll okkar, öreigar og burgeisar, hvort sem við lifum við fátækramörk
eða einhvers staðar þar fyrir ofan, eigum það sameiginlegt að ekki bara
vilja, heldur krefjast þess að hafa það betra í dag heldur en við höfðum
það í gær. Það er bara í mannlegu eðli. Í ofanálag er okkur mannfólkinu
að fjölga með ógnarhraða, hvort sem við lítum bara til Íslands eða
heimsins alls. Og hver er þá lausnin svo allir verði sáttir? Hagvöxtur á
hagvöxt ofan, hlýtur að vera svarið. En hversu mikinn hagvöxt þolir
umhverfið? Er hagvöxtur alltaf sjálfbær? Er hann alltaf jákvæður? Er
þessi ofuráhersla á hagvöxt kannski eins og að ætla að fljúga flugvél
með því að horfa bara á hraðamælinn? Er kannski lausnin frekar fólgin í
því að taka út hagræðingu í auknum frítíma, frekar en auknum kaupmætti?
Er það kannski eitthvað sem verkalýðsforysta framtíðarinnar ætti að
einbeita sér að?

Við lifum á tímum aukinnar hræðslu við hið óþekkta, hræðslu sem ég er
ekki í nokkrum vafa um að er mögnuð upp af samfélagsmiðlum, bæði
viljandi og óvart. Það er orðið býsna fátt í þessum heimi sem getur ekki
drepið okkur. Þó hræðsla geti í undantekningatilvikum verið gagnleg, er
hún það yfirleitt ekki. „Allur er varinn góður“ er alls ekki eitt af
mínum uppáhalds orðatiltækjum, enda er það hreinlega ekki satt. Ef við
viljum ekki taka neina sénsa þá verða varúðarráðstafanirnar sem við
þurfum að taka svo íþyngjandi að betur er heima setið en af stað farið.

Þessi hræðsla skilar sér meðal annars í meiningum um að inn til Íslands
flæði fólk frá framandi löndum og taki með sér öll heimsins vandamál.
Hvaðan þessi hræðsla kemur skil ég ekki, í það minnsta ekki þegar ég
hugsa til þess fólks sem nú þegar hefur komið hingað frá framandi löndum
og hefur unnið að því einu að byggja upp Ísland. Þetta fólk skuldar ekki
neinar útskýringar. Það er miklu nær að við sem erum innfædd skuldum
þessu fólki útskýringar, en viljandi eða óvart höfum við jaðarsett
stóran hluta þeirra. Vonandi er að verða bragarbót þar á, en í þeirri
kjarabaráttu sem nú stendur yfir hef ég heyrt því fleygt fram í fullri
alvöru, og oftar en einu sinni, að það sé erfitt að skilja hvers vegna
verkalýðsforystan á Íslandi er að berjast fyrir kjörum útlendinga sem
hafa flutt hingað til að vinna, tímabundið eða varanlega. Þetta sé
hreinlega ekki okkar barátta. Því er ég, mjög vægt til orða tekið, ekki
sammála. Þetta er nákvæmlega okkar barátta.

Margir málsmetandi greinahöfundar og álitsgjafar tala oft af góðum
vilja, en þó líka af akademísku yfirlæti, um uppgang lýðskrums og
þjóðernishyggju í heiminum. Auðvitað er eðlilegt að vilja skrifa þennan
uppgang á utanaðkomandi öfl og aðstæður sem við ráðum ekki við og eru
okkur framandi. En félagshyggjufólk um allan heim þarf að spyrja sig
óþægilegra spurninga. Hvar og hvernig í ósköpunum misstum við tökin? Eru
félagshyggjuflokkar og verkalýðsfélög í hinum vestræna heimi gjörsamlega
búin að missa tenginguna við almenning? Eru þeir sem leiða baráttuna
fastir í fílabeinsturni sem þeir sjá ekki sjálfir. Hvað í ósköpunum
verður til þess að hreinir og klárir lýðskrumarar komast til valda og
menn, sem eru vellauðugir langt aftur í ættir og hafa aldrei unnið
handtak til gagns, verða að frelsishetjum hins vinnandi manns. Og hvað
er hægt að gera til að breyta þessu?

Allt snýr þetta að uppgangi einstaklingshyggju. Ég trúi því samt
heilshugar að einstaklingshyggjan risti grunnt, en samkenndin nái dýpra.
Við erum ekki villidýr, og við lítum ekki framhjá sveltandi fólki án
þess að rétta á endanum hjálparhönd. Við getum ekki látið það óátalið að
fólk líði skort, hvort sem það er lálaunafólk, öryrkjar eða eldri
borgarar sem lifa á strípuðum ellilífeyri. Og líka þau sem hreinlega
hafa tekið óskynsamlegar ákvarðanir og hagað sér eins og bölvaðir asnar
í lífinu, erum við að fara að setja þau út á Guð og gaddinn? Ég held
ekki.

Kæru bræður og systur, förum út í daginn okkar með baráttuhug í brjósti,
en baráttuhug fyrir bættum hag samfélagsins, ekki bara okkar sjálfra.

Takk fyrir.

Hálfdán Bjarki Hálfdánsson,

formaður Fos-Vest.

Ræða á baráttufundi verkalýðsfélaganna 1. maí á Ísafirði

DEILA