TAKK!

Ég er um það bil að lenda aftur á jörðinni. Búinn að ferðast niður úr þessum margfræga sjöunda himni, hef loks náð að sannfæra sjálfan mig um að ég hafi ekki verið að taka þátt í lygasögu. Ég er svona að mestu búinn að þrífa af mér alla þessa frasa sem ég hef farið með, þegar ég hef verið spurður hvernig hafi gengið á Aldrei fór ég suður á páskunum. Allir hljóma þessir frasar sem innantóm froða. En hvernig gekk allt saman? Jú, þetta gekk einmitt eins og í lygasögu. Við erum vissulega í sjöunda himni með þetta allt saman. Við erum algjörlega í himnasælu. Svona gæti ég haldið áfram en finn þó ekki nógu sterk lýsingarorð (Muna; himnasæla gæti verið ný tegund af sælu til hliðar við kroppsælu á næsta ári). 

Nú er nýafstaðin sextánda Aldrei fór ég suður hátíðin á Ísafirði. Undirbúningur hófst í október síðastliðnum með upphafsfundi að Núpi í Dýrafirði. Það er að mörgu að hyggja og verkefnin jafn mörg og þau eru mismunandi. En það er valin manneskja í hverju rúmi. Fundurinn ákvað að liturinn í húfu ársins yrði gulur og allt markaðsefni skyldi ríma við þann lit. Ákveðið var halda okkur við óbreytt dagskrárskipulag en við skyldum taka upp þráðinn með upphitunardagskrá  í formi skemmtikvölds í Alþýðuhúsinu, eins og við gerðum í nokkur ár. Þar sló Tvíhöfði í gegn. Varningshópurinn okkar fór á meira flug en áður með frábærar hugmyndir að skemmtilegum varningi, auk þess bættum við aðgengið og fjölguðum söludögum. Rétt eins og varningurinn skiptir veitingasalan okkur höfuðmáli í fjáröflun okkar. Aldrei mathöll sló í gegn og fór þar hæst pælan og auðvitað Kroppsælan. Til að kóróna allt var aðsóknin gríðarleg og við fullyrðum að aldrei hafa fleiri sótt hátíðina. Við höfum ekki margar leiðir til að mæla fjöldann þegar engin miðasala er, en til viðmiðunar þá hafa aldrei fleiri komið akandi vestur í páskaviku en í ár. Þetta var einstök stemning. Dásemd.

Við hófum leika með Aldrei fór ég suður árið 2004 og síðustu ár höfum við haft af því áhyggjur hvort við séum brunnin inni í stemningu. Við setjum upp dagskrá og áætlun, hengjum upp plaköt, krossleggjum fingur og vonum að einhver komi. Það er því einstakt að við sláum met á sextándu hátíðinni. Í okkar herbúðum ríkir ekkert annað en auðmýkt, gleði og þakklæti og þegar ég hef heyrt í meðlimum verkhópsins síðustu daga þá hefur engin þreyta mætt mér, bara hamingja og spenna fyrir næstu hátíð. Ég ætla að fá að deila því með ykkur að þarna kristallast mín verðlaun sem starfandi rokkstjóra hátíðarinnar. Það að fá að starfa með rúmlega tuttugu manna hópi frábærra einstaklinga, sem af einskærri ástríðu kemur saman á ári hverju til að undirbúa þessa tónlistarhátíð (og allt í sjálfboðavinnu), það er dásamlegt. Í ofanálag að líta yfir þennan hóp og sjá að varla ein manneskja hefur helst úr lestinni frá upphafi verkefnisins, er dýrmætt.

Þegar ég tala um AFÉS-hópinn sem tuttugu manns þá er það nú ekki fulltalið. Það eru ótal margir sem leggja hendur á plóginn hverja páska. Svo margir íbúar Ísafjarðarbæjar og nágrannabyggðalaga sem hjálpa til og koma að verkefninu hverju sinni. Þess vegna viljum við segja að samfélagið allt haldi þessa hátíð. Þannig líður okkur alla vega. Við fáum mikla velvild frá öllum í kringum okkur, frá bæjaryfirvöldum, fyrirtækjum, einstaklingum og íbúum öllum. Ég vil meina að gestir hátíðarinnar, okkar tónlistarfólk og allir aðrir, finni fyrir þessu. Að það sé velkomið og að samfélagið bjóði hátíðina velkomna á ári hverju. Auðvitað veit ég að sumir eru komnir með leiða á þessu havaríi öllu, aðrir eru á því að það sé bannað að hafa gaman á páskunum en ég vil trúa því að fleiri en við sem stöndum að AFÉS séum stolt af því að fá svona marga gesti vestur og að standa að svona vel heppnuðum viðburði árlega. 

Mig langar fyrir hönd verkstjórnar og aðstandenda Aldrei fór ég suður að þakka af öllu hjarta, öllum þeim sem hjálpuðu okkur, studdu við bakið á okkur og ekki síst öllum þeim sem komu á hátíðina. Án þess að taka út einstaka gesti þá langar mig að nefna tvo heiðursmenn sem komu í hjólastólum ásamt fallegum vinahópi annað kvöldið. Dýrmæt minning og takk fyrir allt. Takk elsku Ísafjörður fyrir að hýsa okkur í blíðunni á milli fjallanna. Við getum kannski prófað að hafa smá meiri snjó næst fyrir þá sem vilja skíða á daginn og rokka á kvöldin (höfum þá bara snjóinn upp í fjöllunum). Takk fyrir skemmtunina kæru gestir og takk fyrir að styðja okkur um leið. Þökkum öðrum íbúum þolinmæðina. Helsta og kannski eina vandamál AFÉS er að eiga ekki okkar eigin íverustað, húsakost. Við höfum verið heppin hingað til (Takk, Kampi!) en það er vitaskuld ekki sjálfgefið. Kannski einn daginn rís Aldrei-höllin með rokksafni sem er opið allan ársins hring. Með sérstöku BG herbergi, Villa Valla horni og litlu kúluhúsi tileinkuðu Ásthildi Cesil. Maður má láta sig dreyma, eitt sinn var Aldrei fór ég suður nefnilega bara fáránleg grínhugmynd en er ekkert fyndin lengur. Heldur fúlasta alvara.

Takk,
Kristján Freyr Halldórsson

DEILA