Sýður á keipum hjá Golfklúbbi Ísafjarðar

Starfsemi Golfklúbbs Ísafjarðar er blómleg um þessar mundir. Klúbburinn rekur æfingamiðstöðina Sundagolf við Sundahöfn á Ísfirði, þar sem boðið er upp á golfhermi og púttvöll, rekur púttvöll við dvalarheimili aldraða við Hlíf og síðast en ekki síst Golfvöll í Tungudal.

Í vetur var haldið golfnámskeið í samvinnu við Ísfirðinginn Auðun Einarsson, sem var mjög vel sótt af nýliðum sem lengra komnum. 11.júní nk.hefst golfnámskeið fyrir börn og unglinga og stefnt á að fá golfkennara fyrir aðra félaga í klúbbnum í sumar. Golfíþróttin er einstaklega fjölskylduvæn íþrótt, bíður upp á útiveru, hæfilega hreyfingu og góðan félagsskap.

Miklar framkvæmdir hafa verið á golfvellinum í Tungudal. Í fyrrasumar var fjórða brautin lengd með nýjum teig sunnan við Tunguá og henni breytt úr par 4. í par 5. braut. Í sumar verður nýr teigur tekinn í notkun við 9. braut, sem verður staðsettur hærra í landslaginu og lengir brautina um tugi metra. Völlurinn hefur verið ræstur víða til að þurrka hann og gera hann notandavænni, fallegri og skemmtilegri. Fljótlega verður hafist handa við framlengja veg frá 7.braut yfir rauða teiginn á 8.braut til að gera akstur golfbíla mögulegan, slíkt er forsenda fyrir því að eldri kylfingar og hreyfihamlaðir geti notið þess að spila á Tungudalsvelli.

Aukning hefur orðið á félögum í klúbbnum sem rekja má m.a. til golfnámskeiða Auðuns Einars. Það tekur á að tileinka sér færni í golfíþróttinni, en golfkennsla hjálpar nýliðum yfir erfiðasta hjallann. Rétt er að benda á nýliðar í G.Í. fá árgjaldið á hálfvirði fyrsta árið.

Í golfskálanum er boðið upp á veitingar fyrir almenning, hvort heldur spilað er golf eða fólk vilji njóta útiveru í fallegu umhverfi Tungudals.

Á laugardaginn kemur verður fyrsta mót sumarsins haldið, Íslandsbankamótið á Tungudalsvelli og allir sem kylfu geta valdið hvattir til að taka þátt. Fyrirkomulag forgjafar gerir öllu kleift að keppa á slíku móti þar sem hún jafnar út getu keppandans og gefur öllum möguleika á árangri í punktakeppni.

DEILA