Reykhólahreppur: unnið gegn Þ-H leiðinni

Frá fundi á Reykhólum þar sem skýrsla Multiconsult var kynnt.

Fréttaskýring:

Meirihluti sveitarstjórnar Reykhólahrepps ákvað á fundi sveitarstjórninnar þann 22. janúar 2019 að fara skyldi Þ-H leið með nýjan veg um Gufudalssveit. Var þá samþykkt að  auglýsa áður framkomna aðalskipulagsbreytingu (1708019) í B-deild stjórnartíðinda. Þegar aðalskipulagi er breytt þarf að auglýsa tillöguna og greinargerð með sem lýsir breytingunni og rökstyður hana.

Nú, hálfum fjórða mánuði síðar er ekki enn búið að auglýsa skipulagsbreytinguna og enn verið að skrifa greinargerðina. Vegagerðin hefur lýst yfir áhyggjum af framvindu mála og hitti  sveitarstjórnina þann 2. apríl í því skyni að ýta á eftir málinu.

Lýsti Vegagerðin því að aðalskipulagstillagan sem nú fyrir lægi væri verulega frábrugðin fyrri tillögu sem  samþykkt hafði verið og það væri verkinu ekki til framdráttar, þar sem tillagan væri byggð á sjónarmiðum sem væru verulega andstæð samþykkt sveitarstjórnarinnar frá 22. janúar 2019.

Sveitarstjórnin samþykkti 22. janúar tillögu sem hafði verið unnin í apríl 2018 af fyrirtækinu Landmótun. En ákveðið var eftir samþykktina í janúar að fá fyrirtækið Alta til þess að vinna tillöguna og greinargerðina fyrir auglýsingu á aðalskipulagsbreytingu. Þá virðist málið taka aðra stefnu og samkvæmt heimildum Bæjarins besta er í greinargerð einkum fjallað um kosti svokallaðrar R leiðar og ókosti Þ-H leiðar og byggt á skýrslu Viaplan sem fengið var til þess að skrifa fyrir sveitarstjórnina á sínum tíma. Vegagerðin gerir skriflega athugasemdir við að rökstuðningur fyrir Þ-H leiðinni eigi að byggjast á skýrslunni þar sem í henni séu niðurstöður og alhæfingar sem Vegagerðin geti ekki fallist á.

Þykir það sérkennilegt að skrifa greinargerð í raun gegn samþykktri aðalskipulagsbreytingu og óttast er að það bjóði upp á að þegar sveitarstjórn hafi gefið út framkvæmdaleyfi fyrir Þ-H leiðinni og það leyfi kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál  að úrskurðarnefndin geti varla annað en fellt framkvæmdaleyfið úr gildi með skírskotin til greinargerðarinnar.

Málið var tekið fyrir á fundi  Skipulags-, hafnar- og húsnæðisnefndar Reykhólahrepps í síðustu viku.  Þar lagði Jóhanna Ösp Einarsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun þar sem lagt er til að fara aftur til fyrri tillögu og greinargerðar:

,,Skipulags-, húsnæðis- og hafnarnefnd leggur fram þá tillögu við sveitarstjórn
að taka skref til baka og vinna tillögu til auglýsingar með Landmótun eins og
hún var lögð fram í apríl 2018 með viðauka gögnum frá Alta sem fram hafa
komið eftir það. Jafnframt telur undirrituð það málinu til framdráttar að taka þetta skref til
baka og leggur áherslu á mikilvægi þess að vinna auglýsinguna um breytingu á
aðalskipulagi í góðri samvinnu við Vegagerðina.
Einnig óskar undirrituð eftir því að samstarf við VSÓ ráðgjöf verði tekið upp aftur til
ráðgjafar í þessu ferli.“

Karl Kristjánsson lagði til að óskað verði eftir fundi með Skipulagsstofnun til
að fara yfir vinnuferlið um breytingu á Aðalskipulagi Reykhóla í framhaldi af
bréfi Vegagerðarinnar.

Báðum tillögunum var vísað til sveitarstjórnar. Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri sagði að ekki yrði fundur í sveitarstjórn í þessari viku, en stefnt að fundi í næstu viku.

Áfram átök innan sveitarstjórnar

Á þessari atburðarrás virðist nokkuð augljóst að áfram eru átök innan sveitarstjórnar um málið. Þrátt fyrir skýra samþykkt um leiðaval þann 22. janúar 2019 er málið sett í annan farveg þar sem áherslan er á andstöðu við Þ-H leiðina. Þannig kemur fram í bréfi Vegagerðarinnar til sveitarstjórnar að fyrirtækið Alta sem fengið var til þess að skrifa aðalskipulagstillöguna með greinargerð fyrir auglýsingu telji sig ekki hafa umboð til þess að breyta áherslunum án beiðni frá Reykhólahreppi. Af þessu má draga þá ályktun að það komi frá Reykhólahreppi fyrirmæli til Alta um að skrifa svo neikvætt um Þ-H leiðina sem raun ber vitni. Í þessu ljósi verður bókun Jóhönnu Aspar skiljanleg þar sem hún segir einfaldlega að ýta eigi því til hliðar sem að undanförnu hefur verið gert og byggja tillöguna á því sem gert var í fyrra, apríl 2018.

Það bíður svo næsta sveitarstjórnarfundar að það skýrist hvort verði ofan á , að aðalskipulagstillagan rökstyðji ákvörðun sveitarstjórnar frá 22. janúar eða vinni gegn henni.

-k

 

DEILA