Landsnet: Afhendingarstaður í Djúpinu kominn á framkvæmdaáætlun

Landsnet kynnir  drög að nýrri kerfisáætlun Landsnets 2019 – 2028 á opnum kynningarfundi á Hótel Ísafirði á morgun , þann 21. maí kl. 15.00 – 17.00.

Á fundinum verður kerfisáætlunin kynnt og fundargestum gefst tækifæri á að spyrja og hitta fólkið sem vinnur að gerð áætlunarinnar og fá að heyra hvað verið er að gera til að tryggja leiðina inn í framtíðina.

Fundurinn er liður í fundarherferð Landsnet um landið.

Stóru tíðindin eru þau að afhendingarstaður í Djúpinu er kominn á framkvæmdaáætlun.  Verkefnið snýr að uppsetningu á nýjum afhendingarstað í meginflutningskerfinu við Ísafjarðardjúp. Afhendingarstaðurinn verður tengdur við núverandi meginflutningskerfi í Kollafirði inn á Mjólkárlínu 1 (MJ1), þar sem byggt verður nýtt tengivirki.

Aðalvalkostur sem lagður er fram er að byggja 132 kV loftlínu, um 26 km langa, að afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi (Miðdal) ásamt tengivirkjum á báðum endum.

Kostnaður er áætlað 2.275 milljónir króna og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2022 og að þeim ljúki með spennusetningu seinni hluta árs 2024. Gert er ráð fyrir að lokafrágangur og lúkning fyrir verkefnið ásamt tengdum verkefnum verði í gangi fram á árið 2024.

Einnig var skoðaður jarðstrengur þessa leið og er kostnaður áætlaður heldur meiri eða 2.367 milljónir króna.

Um þessa tvo valkosti segir í skýrslunni:

Báðir valkostir uppfylla markmið framkvæmdarinnar sem er að auka afhendingaröryggi flutningskerfisins á Vestfjörðum. Einnig hefur verið framkvæmt mat á því hvernig valkostirnir uppfylla markmið raforkulaga og má sjá niðurstöður úr því mati á myndum 3-68 og 3-69. Báðir valkostir koma jafnvel út þegar horft er til markmiða um skilvirkni og öryggi. Valkostur 2, sem er jarðstrengskostur, kemur betur út þegar horft er til áreiðanleika afhendingar en valkostur 1, sem er loftlína, kemur betur út þegar horft er til gæða raforku og hagkvæmni.
Hvað varðar stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, er valkostur 1 sá sem samræmist stefnunni betur, þar sem gert er ráð fyrir að línur í meginflutningskerfinu séu lagðar sem loftlínur, nema þegar sértstök viðmið eigi við.  Þau viðmið eiga ekki við í þessu tilfelli.
Það er því niðurstaða valkostagreiningar að Valkostur 1 er sá valkostur sem best uppfyllir öll markmið og samræmist best stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins og lagningu raflína.

 

DEILA