Kostnaður við umferðarslys 51 milljarður króna

Frá vatnavöxtum í Hestfjarðará í nóvember síðastliðnum. Mynd : Kristinn H. Gunnarsson.

Í nýútkominni skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys á Íslandi 2018 kemur fram að kostnaðurinn við umferðaslysin er áætlaður hafa vera um 51 milljarður króna. Alls urðu 6336 slys og óhöpp á síðasta ári. Banaslysin urðu 15 og 155 alvarleg slys. Kostnaður við hvert banaslys er áætlaður 660 milljónir króna og við hvert alvarlegt slys 86,4 milljónir króna, hvort tveggja á verðlagi ársins 2013. Slys Íslendinga í útlöndum eru ekki skráð í slysaskrána, en hins vegar slys útlendinga hér a landi.

Í skýrslunni segir að árið 2018 hafi að mörgu leyti verið gott ár í umferðinni á Íslandi.

Á síðustu tíu árum (2009-2018) létust 133 í umferðinni á Íslandi en árin tíu þar á undan (1999-2008) létust 229. Því má segja að 96 mannslíf hafi bjargast á síðustu tíu árum eða u.þ.b. tíu á ári, segir í skýrslunni.

Flest slys og óhöpp verða á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þar á eftir eru annars vegar tvö önnur stór gatnamót við Miklubraut (Háaleitisbraut og Grensásvegur) og hins vegar þrjú gatnamót eða hringtorg í Hafnarfirði; Hringtorg Flatahraun / Fjarðarhraun /Bæjarhraun, hringtorg Reykjanesbraut / Lækjargata og gatnamót við Kaplakrika (Reykjanesbraut / Fjarðarhraun).
Þegar kemur að slysum með meiðslum eru gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar einnig með flest slys. Þar á eftir eru svo gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar og gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar.

Vestfirðir : 94 slys og óhöpp

Á Vestfjörðum urðu 94 slys og óhöpp þar sem 35 slösuðust eða létust. Eitt banaslys varð á árinu, í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi. Sá vegarkafli er í fjórða sæti yfir flest slys í dreifbýli með meiðslum sé miðað við umferðarmagn á árabilinu 2014-2018. Um er að ræða Djúpveg  (Hvítanesvegur (6315-01) – Hestfjarðará) 14 km langan vegarkafla þar sem urðu 7 slys með meiðslum.

 

DEILA