Kosningarnar í Árneshreppi enn kærðar

Frá Norðurfirði.

Sveitarstjórnarkosningarnar í Árneshreppi í fyrra  hafa enn verið kærðar og er málið nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Það eru Ólafur Valsson og Elías Svavar Kristinsson sem hafa skotið málinu til dómstóla og krefjast þess að kosningarnar verði dæmdar ógildar.

Upphaflega kærðu þeir Elías og Ólafur kosningarnar strax í byrjun júní 2018 og tók lögum samkvæmt sérstök nefnd sem sýslumaðurinn á Vestfjörðum skipaði við málinu. Sú nefnd kvað upp úrskurð 12. júní og hafnaði kröfunum um ógildingu.  Kærendur skutu þá málinu til dómsmálaráðuneytisins sem þann 1. ágúst 2018  einnig hafnaði kröfunum um ógildingu kosninganna.

Kærendurnir, Elías og Ólafur, ákváðu að fara með málið til dómsstóla og er málflutningi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur lokið og búist er við að dómur falli á næstu vikum.

Leiðrétting 9.5. kl 23:46:

Hér þarf að gera leiðréttingu. Hið rétta er að málið er rekið fyrir héraðsdómi Vestfjarða. Það var hins vegar settur dómari í þessu eina máli til að dæma þar sem lögmaður stefnanda er eiginmaður héraðsdómara Vestfjarða.  Dómarinn var því vanhæfur og því settur dómari í þessu tiltekna máli.

 

DEILA