Karlakórinn Esja syngur á Vestfjörðum

Karlakórinn Esja. Myndir: aðsendar.
Karlakórinn Esja er kominn vestur og mun í dag og um helgina skemmta Vestfirðingum með heimsóknum, gleði og söng. Guðfinnur Einarsson, sem auðvitað er Bolvíkingur er einn af driffjöðrum kórsins og í honum eiga margir vestfirskar rætur og tengingar.
Guðfinnur segir að Karlakórinn Esja hafi verið  stofnaður í janúar 2013 og var strax frá upphafi með óvenju hátt hlutfall söngmanna ættaðra frá Vestfjörðum. Það hefur því lengi staðið til að heimsækja Vestfirði.
„Þegar Bolvíkingurinn Guðmundur Gunnarsson flutti svo til Ísafjarðar síðastliðið haust og tók við stöðu bæjarstjóra var einfaldlega ekki hægt að að bíða lengur og ferðalagið strax sett á dagskrá.“ segir Guðfinnur.
Sameininlegir tónleikar með karlakórnum Ernir
„Við settum okkur í samband við heimamenn í Karlakórnum Erni og úr varð að skipuleggja sameiginlega tónleika, þar sem áherslan verður á að hvor kór fái aðeins að láta sitt ljós skína en meginþorrinn á efnisskrá séu hins vegar stór sameiginleg lög.
Í heimsókninni vestur leggjum við áherslu á að koma sem víðast við eins og tími leyfir og verðum með skipulagðar skoðunarferðir á Suðureyri, Ísafirði og Bolungarvík. Það er ekki ólíklegt að íbúar á þessum svæðum fái óumbeðið að heyra í okkur.
En við verðum jafnframt með nokkra skipulagðar uppákomur.
Á föstudaginn 10. maí verðum við með tónleika fyrir íbúa og starfsfólk á Hjúkrunarheimilinu Eyri.
Á sjálfan tónleikadaginn laugardaginn 11. maí verðum við í Sundlaug Bolungarvíkur kl 12:30. Þar hefur reglulega verið boðið upp á samflot, svo við ákváðum að bjóða upp á pop öp tónleika undir heitinu ,,Mörflot í Musterinu“. Þar sjáum við gríðarleg tækifæri til einhvers konar glens og í lok tónleikanna mun kórinn fara ofan í laugina og taka eitt lag fljótandi, ásamt nokkrum hugljúfum pottalögum.
Þó eru skiptar skoðanir um hvort að bakkahluti tónleikanna fari fram á sundfötunum eða í fötum. Kórstjóri, sem hefur náð gríðarlega góðum árangri á Ketó er mikið í mun ,,að koma nakinn fram“. Á meðan formaður, sem hefur séð fötin sín skreppa hratt saman undanfarið, vill helst hylja mörinn.“
Tónleikarnir sjálfir verða síðan í Ísafjarðarkirkju klukkan 17:00. 
Vestfirskar taugar kórsins eru mjög miklar. Kórinn hefur til að mynda tvívegis komið fram á styrktartónleikum sem haldnir voru fyrir orgelsjóð Hólskirkju. Á tónleikunum sjálfum verður meira að segja notast við pípur úr gamla orgelinu úr Hólskirkju. Kórinn mun svo að sjálfsögðu heimsækja kirkjuna og prufukeyra nýja orgelið með söng.
Fáni kórsins var útbúinn af Fánasmiðjunni og svo lítur kórinn á sig sem einn stærsta kaupanda á unnu fiskiroði á Vestfjörðum. Því frá upphafi hafa roðslaufur frá Fríðu Rúnars verið uppistaðan í kórbúning kórsins. Þess má síðan til gamans geta að Fríða passaði þrjá af meðlimum kórsins þegar þeir voru yngri, með góðum árangri.
„Við Esjumenn hlökkum mikið til þessa ferðalags og erum gríðarlega þakklátir fyrir þá miklu gestrisni sem Ernismenn eru að sýna okkur“ segir Guðfinnur Einarsson að lokum.
DEILA