Ísafjarðarbær : Fjárfest fyrir 575 millj. kr. á árinu 2018

Frá fundi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjárfest var fyrir 575 millj. kr. á árinu 2018 en áætlaðar fjárfestingar voru 730 millj. kr. Helsta skýring frávika frá áætlun er sú að inni í fjárfestingum er ekki 100 millj. kr. fjárfesting á árinu vegna Sindragötu 4a þar sem áætlað er að selja allar íbúðirnar á árinu 2019 og þær því flokkaðar meðal veltufjármuna. Fjárfestingar sveitarsjóðs námu 520 millj. kr. og fjárfestingar B-hluta stofnana námu 55 millj. kr.

Mikil umsvif voru við gatnagerð og stíga á árinu þar sem malbikunarstöð kom vestur og var fjárfest fyrir 275 millj. kr. Götur sveitarfélagsins voru malbikaðar fyrir 100 millj. kr., þar af 55 millj. kr. á Ísafirði og 45 millj. kr. á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Stærsta einstaka framkvæmdin á árinu var hellulögn Tangagötu frá Þvergötu að Austurvegi sem nam 70,5 millj. kr. Nýjar götur; Akurtunga og Æðartangi voru gerðar fyrir um 66 millj. kr. á árinu og nýr göngustígur var lagður meðfram grjótgarðinum í Fjarðarstræti fyrir 33 millj. kr. sem hefur vakið mikla ánægju meðal íbúa og notkun hans farið fram úr öllum spám.

Til viðbótar við gatnagerð og stíga voru settar 107 millj. kr. í skólamannvirki á árinu. Þar má helst nefna hönnun á viðbyggingu við Eyrarskjól sem verður til þess að skólinn getur tekið við fleiri börnum og bætir starfsmannaðstöðu til muna. Gerðar voru breytingar innanhúss í Grunnskólanum á Ísafirði til að koma fyrir starfsemi Dægradvalar sem nú getur tekið við öllum börnum 1. til 3. bekkja. Skólalóðir Grunnskólanna á Ísafirði og Flateyri voru endurnýjaðar á árinu.

Miklar framkvæmdir voru í snjóflóðavörnum á árinu og var hlutur sveitarfélagsins um 54,6 millj. kr.  Framkvæmdir í Kubba fóru á fullt og nam kostnaðurinn alls 573 millj. kr., en Ofanflóðasjóður greiðir 90% af honum.

Fjárfesting í íþróttamannvirkjum nam um 35 millj. kr. og tækjakaup eignasjóðs námu um 18,3 millj. kr. Meðal annars var keyptur skólabíll á Þingeyri fyrir 5,7 millj. kr. og björgunarbúnaður fyrir slökkviliðið fyrir 6,5 millj. kr. Nýja þjónustuhúsið á tjaldsvæðinu á Þingeyri var klárað fyrir um 9,6 millj. kr., hverfisráðin fengu úthlutað 11,1 millj. kr. og uppbyggingasamningar voru framkvæmdir fyrir 8 millj. kr.

DEILA