Í matvælaframleiðslu er fiskeldi helsti vaxtarbroddurinn

Sennilega vex engin matvælaframleiðsla í heiminum eins hratt og fiskeldi, líkt og lesa má úr gögnum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. Það er ekki að ástæðulausu.

 

Áætlað er að jarðarbúum fjölgi um 2 milljarða á næstu þrjátíu árum, fari úr 7,7 milljörðum í 9,7 milljarða. Þessu fylgir óhjákvæmilega mun meiri neysla á prótíni; hjá því verður einfaldlega ekki komist. Lífskjör eru almennt að batna í heiminum og þar með eykst neysla vaxandi hóps sem hefur kaupmátt til að kaupa matvöru á borð við kjöt og fisk. Ljóst er því að eftirspurnin mun aukast á komandi árum. Verkefnið er risavaxið og stóra spurningin er þá; hvaðan á þetta prótín að koma?

 

Í hverri skýrslunni á fætur annarri er bent á að fiskeldi í heiminum muni vaxa. FAO hefur til að mynda vakið athygli á þessu árum saman. Með batnandi lífskjörum í heiminum eykst spurn eftir dýrari fiskeldisafurðum, svo sem laxi, ár frá ári eins og tölur síðustu ára hafa einnig staðfest. Það er því fráleitt sem látið hefur verið í veðri vaka að Sameinuðu þjóðirnar vari við fiskeldi á borð við það sem stundað er með góðum árangri vestan hafs og austan og er nú að vaxa fiskur um hrygg hér á landi.

 

Miklar og örar tækniframfarir eiga sér stað í hvers konar fiskeldistækni. Þær opna nýjar leiðir til frekari vaxtar í góðri sátt við lífríkið. Færð hafa verið fyrir því rök að breytt neyslumynstur og náttúrulegar aðstæður stuðli að hlutfallslega aukinni eftirspurn eftir fiskafurðum umfram ýmsar aðra matvælaframleiðslu. Víða um heiminn, þó ekki hér á landi, er ræktarland komið að endimörkum; til lengri tíma litið gæti sú staða skapað íslenskum landbúnaði ný sóknarfæri. Bent er á – meðal annars af alþjóðastofnunum –  að landbúnaðarframleiðsla á ákveðnum svæðum hafi leitt til eyðileggingar búsvæða viðkvæmra lífvera og geti því ekki vaxið  á heimsvísu. Þetta eykur enn þörfina á fiskeldi af margs konar toga.

 

Íslenskur sjávarútvegur hefur náð ótrúlegum árangri með því að auka vinnsluvirðið með stórbættri nýtingu sjávarfangsins og sker sig úr að því leyti í samanburði við aðrar þjóðir. Það breytir hins vegar ekki þeirri stóru heildarmynd að óhjákvæmilegur og bráðnauðsynlegur  vöxtur í fiskframleiðslu muni í framtíðinni koma frá fiskeldi, rétt eins og gerst hefur á undanförnum árum. Þetta blasir við hverjum manni og þetta eru þau skilaboð sem fræðimenn, greinendur og alþjóðastofnanir, þar með talið stofnanir Sameinuðu þjóðanna, hafa sent frá sér ítrekað á undanförnum árum og gera enn.

 

Einar K. Guðfinnsson, starfar að fiskeldismálum hjá SFS

DEILA