Hvalárvirkjun : afstaða Ísafjarðarbæjar óbreytt

Frá Ófeigsfjarðarheiði. Mynd: Verkís.

Á aðalfundi Landverndar sem fram fór um helgina var samþykkt áskorun til Umhverfisráðherra um „að  friðlýsa Drangajökulsvíðernið og standa óhagganlegan vörð um önnur óbyggð víðerni Íslands; tryggja þarf að ekki verði gengið á þau víðerni sem eftir eru og stuðla að endurheimt þeirra sem glatast hafa.“ Jafnfram segir að hart sé sótt að  Drangajökulsvíðerninu „af fyrirtækinu HS Orku, sem er í meirihlutaeigu
erlends stórfyrirtækis“ og að röskun víðernanna yrði gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar eins og það er orðað. Því til viðbótar stendur Landvernd fyrir undirskriftarsöfnun á netinu um að flýra friðlýsingu á áhrifasvæði Hvalárvirkjunar.

Óbreytt afstaða

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir aðspurður af þessi tilefni að

afstaða Ísafjarðarbæjar sér óbreytt.  „Okkar hagsmunir eru, eftir sem áður, hinir sömu. Staða raforkumála fjórðungsins er óviðunandi og við styðjum úrlausnir í orkumálum sem byggja á umhverfisvænum orkugjöfum og bæta afhendingaröryggi íbúa og fyrirtækja á Vestfjörðum.“

Fylgja þarf rammaáætlun

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar bendir á það „ef Landvernd er ekki tilbúið að styðja það fyrirkomulag sem lagt var upp með sem sáttaleið þ.e. að forgangsraða virkjunarkostum í nýtingu bið og skoðun í Rammaáæltun þá þarf að endurhugsa allt ferlið. Það getur ekki verið þannig að það sé þannig að þegar að ramminn liggi fyrir þá fari Landvernd í að stoppa þá virkjunarkosti sem settir eru í nýtingu. Það er svipað og ef orkufyrirtækinn myndu halda áfram með kosti sem settir eru í vernd. Ég er ekki viss um að það sé staða sem að við værum sátt með.“

Hvers vegna Hvalárvirkjun:

Daníel Jakobsson rökstyður afstöðuna til Hvalárvirkjun með þessum orðum:

„Kostir Hvalár fyrir raforkuöryggi á Vestfjörðum og landinu öllu eru augljósir. Í fyrsta lagi eykur virkjunin beint raforkuöryggi á Vestfjörðum umtalsvert. Í öðru lagi býr hún til flutningstekjur í raforkukerfinu hjá Landsneti sem hægt er að nýta í að byggja upp raforkukerfið á Vestfjörðum. Þessar tekjur þyrftu ella að koma úr ríkissjóði. Í þriðja lagi eru kostir við það að Vestfirðir verði útflytjandi af raforku í stað þess að flytja hana inn af meginnetinu. Við það losna stíflur eins og í flutningi raforku frá höfuðborgarsvæðinu til t.d. Norðurlands þar sem að mikill skortur er á raforku. Flutningur á raforku er líklegur að verða takmarkandi þáttur í raforkuframleiðslu og ef það verður raunin mun orkan fara þangað sem aðilar eru tilbúnir að borga mest fyrir flutninginn. Vestfirðingar reiða sig mikið á ótryggan flutning raforku, sem er ódýr. Sú orka er nýtt m.a. til húshitunnar. Ef Hvalárvirkjun kemur styrkir það flutningsstöðu Vestfjarða sem er gott. Því rafmagnið fer alltaf styðstu leið ekki endilega til þess sem kaupir það.“

 

DEILA