Gjaldþrot WOW air: Var það ekki hreinlega stórt axarskaft?

Allar ríkisstjórnir gera axarsköft, misstór. Það er bara mannlegt. Nú sjá ýmsir leikmenn og spekingar ekki annað en valdhafar hafi gert sig seka um algjört dómgreindarleysi í WOW air málinu. Og það þrátt fyrir að félagið hafi kannski verið vonlaust til frambúðar. Í þessu máli var svo margt að verja.   Peningafakírinn Mogensen heldur því fram að ríkissjóður hafi fengið hundruð milljarða í beinar og óbeinar tekjur af rekstri félagsins fram að gjaldþroti. Fyrir utan borg og bæi væntanlega. Þó það hefði ekki verið meira en bara eitt hundrað milljarðar, hefði það átt að kveikja viðvörunarljós hjá valdhöfum og ráðgjöfum  þeirra.

Þeir virðast ekki hafa séð augljósa hagsmuni íslensku þjóðarinnar og ríkiskassa hennar upp á fleiri tugi milljarða þó ekki væri nema næstu ferðamannamánuði. Fyrir utan allt annað sem maðurinn á götunni sá, en ekki ríkisstjórnin og vitringar hennar. Og starfsfólk félagsins í algjöru sjokki. Þar störfuðu Íslendingar að stórum hluta. Allir sammála um að það hafi verið Mogensen metnaðarmál. Svo voru hinir sem höfðu framfæri sitt beint af þessu ævintýri. Þúsundir manna. Margir flugmanna okkar verða nú nauðugir viljugir að rífa sig upp með fjölskyldur sínar og ráða sig til starfa erlendis. Allir meira og minna grátandi.

Neyðaráætlun skyldi það vera

Ríkisstjórnin vildi ekki tryggja hagsmuni þúsunda Íslendinga. En við höfum fylgst vel með öllu, segja ráðherrarnir. Nema hvað. Voru alveg klárir með neyðaráætlun. En raunhæfar aðgerðir? Nei, það mátti ekki. Þetta var nefnilega hlutafélag! Svo eigum við 30 milljarða handan við hornið ef illa fer, segja ráðamennirnir.

Valdhafar á ýmsum tímum hafa veitt hlutafélögum stór lán og ríkisábyrgðir. Eitt lítið dæmi af mörgum: Árið 1956 reiddu Alþingi og ríkisstjórn fram hálfa milljón króna til að halda Flugfélagi Íslands hf gangandi. Þá hafði það verið rekið árum saman með bullandi tapi. Hvað skyldu það vera margir milljarðar í dag? (Sjá Jakob F. Ásgeirsson: Alfreðs saga og Loftleiða) Þessi bók þeirra félaga er stórmerkileg og sláandi.

Ábyrgð hluthafa takmarkast alltaf við hlutafé

Það er eins og menn átti sig ekki alltaf á því, að ábyrgð hluthafa takmarkast við framlagt hlutafé. Og er þá nákvæmlega sama hvort hlutafélag er í eigu ríkisins, samvinnufélags, eða einstaklinga. Við vitum ekki betur. Skuldabréfaeigendur nefndu, að til að koma félaginu í rekstrarhæft form, þyrfti einhverja 5 milljarða. Það hefði verið áhættan hjá ríkissjóði og meirihlutaeign á borðinu. Setja svo menn yfir reksturinn sem kunna að fara með peninga og Skúla Mogensen sem starfsmannastjóra.

Hvað neyðaráætlun ríkisstjórnarinnar getur kostað veit enginn á þessu stigi. Kannski 20-30 milljarða? Fyrir utan tekjur í útsvari og sköttum upp á jafnvel tugi milljarða. Og andlegar þrengingar þúsunda manna sem ekki verða virtar til fjár. Og þetta er í upphafi ferðamannatímabils.

„Vinnumálastofnun hætti við árshátíðarferð starfsmanna vegna aukins álags í kjölfar gjaldþrots WOW air. Stofnuninni höfðu borist um 700 atvinnuleysisbótaumsóknir í byrjun mánaðar.“ Svo segir á ruv.is. Starfsfólk stóð sig afburða vel, en að þrotum komið. Hvað skyldu liggja margir milljarðar bara þar?

Það hefðu verið búhyggindi að gefa Wow 5 milljarða!

Ríkisstjórninni datt ekki í hug að leggja „skattfé almennings“ í þetta vonlausa dæmi! Hugsa sér. Og það mátti heldur ekki tryggja tugmilljarða rennsli af „skattfé almennings“ í alls konar kassa, þó ekki væri nema fram á haustið. Fimm milljarðar í hlutafé eða gjöf til WOW hefði væntanlega gefið svigrúm til björgunar á margfaldri þeirri upphæð. Spyrja verður: Skyldi enginn sem vit hefur á hafa yfirlit yfir þetta stóra mál?

Allt dæmið minnir á stúdentinn sem spurði bóndann hvort væri þyngra eitt kíló af dún eða eitt kíló af blýi. Láttu hvort tveggja detta á tærnar á þér. Þá finnurðu muninn svaraði hinn skynsami búandkarl. Eða þá bóndann sem var ekki eins skynsamur. Hann lógaði bestu mjólkurkúnni sinni af því hún baulaði svo hátt!

Hitt er svo allt annað mál, að það kemur ugglaust að því fyrr en varir, að við verðum að fækka flugferðum okkar um kannski helming eða meira. Hvað sem um það er, þá vilja nú margir, með Ástþór okkar í fararbroddi, stofna lággjaldaflugfélög. Og Samkeppnisstofnun talar um hræið af WOW air. Merkilegt.

Við, gamlir og afdankaðir spekingar fyrir vestan, höfum kannski ekkert leyfi til að vera að röfla um svona hluti. En hvar eru rannsóknarblaðamennirnir?

Hallgrímur Sveinsson Guðmundur Ingvarsson Bjarni G. Einarsson

DEILA