Gamanmyndahátíð Flateyrar hefur opnað fyrir innsendingar gamanmynda.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar að afhenda Óskari Jónassyni heiðursverðlaunin á síðustu hátíð. Mynd: Arjan Wilmsen.
Gamanmyndahátíð Flateyrar verður haldin í fjórða sinn í september og er hátíðin þegar byrjuð að taka við gamanmyndum. Í ár verður sú nýbreytni að bæði verða sýndar íslenskar og erlendar gamanmyndir. Á undanförnum árum hafa aðeins verið sýndar íslenskar myndir á hátíðinni en með alþjóðavæðingu hátíðarinnar undir nafninu Icelandic Comedy Film Festival er vonast til þess að geta boðið landsmönnum upp á enn fleiri og enn fyndnari gamanmyndir frá öllum heimshornum þó megin áherslan verði áfram á fyndið íslenskt efni segir í fréttatilkynningu frá hátíðinni.
Hægt er að senda inn myndir á hátíðina í gegnum Filmfreeway (https://filmfreeway.com/IcelandComedyFilmFestival) og kostar ekkert að senda inn íslenskar myndir. Einu kröfunar sem eru gerðar eru að myndirnar séu fyndnar og að þær hafi ekki verið sýndar á hátíðinni áður. Myndirnar mega vera leiknar, teiknaðar eða heimildamyndir, jafnt gamlar sem nýjar. Innsendingarnefndin mun leggja meiri áherslu á að myndin sé fyndin, fremur en fullkomin.
Veitt verða verðlaun í nokkrum flokkum í ár, fyndnasta íslenska myndin og fyndnasta erlenda myndin auk þess sem veitt verða verðlaun fyrir fyndnasta karakterinn og fyndnustu senuna. Þá verða heiðursverðlaun hátíðarinnar einnig á sínum stað.
Gamanmyndahátíð Flateyrar hefur farið ört vaxandi undanfarin ár, en alls sóttu tæplega þúsund gestir viðburði hátíðarinnar í fyrra. Hátíðin var tilnefnd á Eyrarrósarlistann í ár, sem framúrskarandi menningarviðburður á landsbyggðinni enda er boðið upp á margvíslega viðburði á hátíðinni fyrir utan gamanmyndasýningar. Til að mynda verður í ár boðið upp á gamansama leiksýningu, uppistand, tónleika, matarveislur, vinnusmiðjur og sveitaball eins og þau gerast best.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um hátíðina á vefsíðu hennar: https://www.icelandcomedyfilmfestival.com/
DEILA