Framtíð og rekstur Edinborgarhússins rædd í bæjarráði Ísafjarðarbæjar

Bæjarráð ísafjarðarbæjar ræddi framtíð og stöðu Edinborgarhússins á fundi sínum á föstudaginn. Lagt var fram bréf stjórnar Edinborgarhússins til bæjarráðs þar sem gerð er grein fyrir stöðunni og ákvörðun stjórnar um að skera niður í rekstri hússins.  Stærsti einstaki þátturinn í því er uppsögn rekstrar- og viðburðarstjóra sem mun að óbreyttu láta af störfum í lok sumars.

Stjórnarmennirnir Ingi Björn Guðnason og Gísli Jón Hjaltason mættu til fundarins og skýrðu ákvörðun stjórnarinnar.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að halda áfram að vinna með Edinborgarhúsinu að þríhliða samningi við ríkið um framlagt til menningarmiðstöðvarinnar.

Aron Guðmundsson, bæjarfulltrúi Í-listans lagði fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúi Í-listans í bæjarráði lýsir yfir þungum áhyggjum með þá stöðu sem upp er komin varðandi rekstur Edinborgarhússins. Mikið og gott starf hefur verið unnið þar seinustu misseri og er það mat mitt að finna verði leiðir til þess að afstýra þeirri stöðu sem upp er komin, einhvað sem hefði þurft að gerast fyrir þó nokkru síðan þar sem það hefur legið fyrir í talsverðan tíma að þessi staða gæti komið upp.

Það að þurfa segja upp rekstar- og viðburðarstjóra hússins er óásættanleg staða sem þarf að koma í veg fyrir. Eftir því hefur sérstaklega verið tekið hversu mikill kraftur hefur fylgt þeirri stöðu og íbúar sveitarfélagsins sem og gestir hafa vart undan við að sækja menningarlega viðburði í húsinu, svo öflugt starf hefur verið unnið þar. Rekstrar- og viðburðastjóri er ein af forsendum þess að fylla húsið af menningarlífi eins og til er ætlast.

Menningarleg saga okkar er öflug, hún er einhvað sem við getum montað okkur af. Edinborgarhúsið er öllum tækjum og tólum búið til þess að hýsa margskonar viðburði, og er afar mikilvægt að fundin verði ásættanleg lausn svo menningin geti dafnað nú sem áður í þessu öfluga menningarhúsi bæjarins.“

DEILA