Fræðslufundur Íbúðalánasjóðs . Allt um húsnæðislán

Íbúðalánasjóður stendur fyrir opnum fræðslufundi í húsakynnum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, Suðurgötu 12, þriðjudaginn 14. maí frá kl. 17:00.

Fræðslufundurinn, sem ber yfirskriftina „Allt um húsnæðislán“, er hluti af fundarherferð húsnæðissviðs Íbúðalánasjóðs um landið. Fundurinn er öllum opinn, en á honum er fjallað um helstu atriði sem gott er að hafa í huga áður en farið er af stað í húsnæðiskaup. Helstu hugtök hvað varðar húsnæðiskaup og lántöku eru útskýrð á skýran og einfaldan máta.

Frá Íbúðalánasjóði koma Kristján Arnarsson og Drengur Óla Þorsteinsson og fara yfir þessi atriði. Kristján sagði í samtali við Bæjarins besta að áður hafi verið haldinn svona kynningarfundur í Reykjavík og á honum var húsfyllir, svo greinilegt er að áhugi er á því hjá væntanlegum kaupendum íbúðarhúsnæðis að kynna sér hina ýmsu þætti sem tengjast kaupum, svo sem hugtökunum jafngreiðslulán, greiðslubyrði og svo framvegis.

Benti Kristján á að hlutverk húsnæðissviðs Íbúðalánasjóðs væri að veita einstaklingum og fjölskyldum á Íslandi hlutlausa og heiðarlega fræðslu og ráðgjöf í húsnæðismálum og fundarherferðin væri til þess að mæta því.

Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á léttar veitingar.

DEILA