Dragspilin þanin á stórtónleikum á Þingeyri við mikla ánægju viðstaddra

Harmonikudagurinn var haldinn á laugardaginn var á þIngeyri. Hallgrímur Sveinsson var þar og setti saman þessa skemmtilegu greinargerð um það sem þar fram fór:

Það er ekki að því að spyrja þegar Dýrfirðingar koma saman að lyfta sér upp úr hversdagsleikanum með söng og hljóðfæraleik. Þá lifnar yfir mannlífinu. Hefur svo verið lengi. Rifja má upp að karlakór var stofnaður á Þingeyri 1906, einn sá fyrsti á landinu og hét Svanur. Lúðraflokkur stofnaður þar 1910, Big band þeirra tíma, var líka einn sá fyrsti á landinu og hét Lúðrasveit Dýrafjarðar. Svona mætti lengi telja.

 

Ókeypis stórtónleikar

Á nýliðnum Harmonikudegi, 4. maí, sem haldinn var hátíðlegur um land allt, komu Harmonikukarlarnir og Lóa með dragspil sín í Félagsheimilið og héldu ókeypis stórtónleika með ýmsum öðrum kröftum. Er þetta stærsta harmonikuhljómsveit norðan Alpafjalla eins og kunnugt er, eða þannig. Sannleikurinn er sá að harmonikukarlarnir í Dýrafirði, með Guðmund Ingvarsson hljómsveitarstjóra (og konsertmeistara) í broddi fylkingar, hafa nú all mörg lög á tónleikaskrá sinni sem þeir geta spilað kinnroðalaust hvar sem er og hvenær sem er, enda margar æfingar að baki. Elínbjörg Snorradóttir, húsfrú á Mýrum, Lóa, hefur svo viss dempandi áhrif á karlana, með hógværri framkomu sinni og elskulegheitum, að þeir fari ekki fram úr sjálfum sér.

Harmonikukarlarnir voru 7 að þessun sinni. Fyrir utan hljómsveitarstjórann voru það Sigurður Friðrik framkvæmdastjóri og honum verða menn að hlýða og ekkert múður. Þá Þórður útvegsbóndi í Skjólvík, Hreinn hreppstjóri á Auðkúlu, Ásvaldur fyrrum bóndi á Ingjaldssandi og einhver frægasti ýtustjóri hér vestra á sinni tíð, þúsundþjalasmiðurinn Kristján frá Hofi og síðast en ekki síðast Bergsveinn á Mýrum, maðurinn hennar Lóu. Eru þetta ekki samtals 8 harmonikuleikarar? Líni Hannes Sigurðsson lék á hljómborð og er löngu orðinn fastur maður í bandinu. Þá var hann Oliver danski gestaspilari og lék á trommur með sveitinni.

 

Ekki voru margar feilnótur slegnar!

Harmonikudagurinn hófst að þessu sinni með því að frúin á Mýrum, Edda Arnholtz, söngvari hljómsveitarinnar, bauð gesti velkomna með flottri ræðu. Síðan fóru menn að þenja dragspil sín. Var þar allt undir kontról og ekki margar  feilnótur slegnar. Söng Edda hvert lagið af öðru með stórbandinu, gamla slagara eins og Seven lonely days, sem Doris Day gerði frægt á sinni tíð og allt. Var góður samhljómur á milli allra aðila, enda frúin fínasti söngvari. Sannleikurinn er sá að það er mikið vandaverk að stilla saman svona marga strengi svo vel fari. Enda koma menn úr margs konar eldhúsum frá fyrri tíð, en spilað var á harmoniku á öðrum hverjum bæ hér um slóðir í gamla daga.

 

Flott danspör 

Boðið var upp á dans. Þar voru fyrst á gólfið, eins og oft áður, Ingibjörg Þorláksdóttir og Hólmgeir Pálmason. Þau eru frábærir dansarar. Varla að maður þori að nefna að þau minna bara á þegar Fred Astaire var að sveifla Ginger Rogers, sællar minningar. Má líka vel nefna, að skórnir Hólmgeirs eru mjög svipaðir dansskónum hans Astaires. Þessum með hvítu leggingunum, þið munið!     Svo voru náttúrlega hjónin frá Hnífsdal, Sigrún og Halldór, Dóri og Rúna, sem eru líka flottir dansarar. Og fleiri sem maður leggur ekki í að nafngreina.

 

Óvænta atriði og önnur klassísk

Óvænta atriðið var danska parið Oliver og Mija. Þau eru bæði háskólagengin í tónlist. Frábær sem slík. Komu hingað í haust og héldu tónleika í Blábankanum. Fréttu þá af fyrirbærinu Harmonikukörlunum og co. Höfðu mikinn áhuga á að hitta það band. Vildu svo endilega koma aftur og gerðu það. Færðu þeim frumsamið tónverk og fluttu með sveitinni á tónleikunum. Höfum við ekki vit á öðru en það sé hið besta verk, skemmtilegt og sérstætt. Svo spiluðu þau og sungu nokkur lög.  „Det var meget interessant“!

Að lokum komu svo snillingarnir frá Ísafirði upp á senu að vanda. Þeir eru aldeilis magnaðir og eru ekkert farnir að slá af: Villi Valli, Magnús Reynir, Baldur Hólmgeirs og Sammi rakari. Og svo sonur hans Baldurs á trommunum.

Ekki má gleyma að nefna hann Hauk Sigurðsson, myndatökumanninn flotta. Hann snýst eins og skopparakringla með myndavélina þegar spennurnar eru teknar af nikkunum í Dýrafirði. Hann er sjálfur flinkur á nikkuna og er eiginlega orðinn meðlimur í hinu fræga bandi. Svo var hann túlkur hjá þeim Oliver og Miju.

Félagsheimilið var nokkuð þéttsetið. Einkum var áberandi hvað margt aðkomumanna, einkum Ísfirðingar, var á staðnum. Kaffi og með því fengu menn svo hjá Kvenfélaginu Von og var ekki að spyrja að myndarskapnum á þeim bæ. Dagurinn var öllum aðstandendum til sóma.

 

Ellefu og hálfur!

Loks skal rifjað upp til gamans, að eitt sinn fór þessi nafnkunna og stóra hljómsveit í hjómleikaför til Bíldudals með varðskipi. Þá voru Syngjandi páskar á dagskrá sem séra Tómas gerði fræga, sá eftirminnilegi maður. Segir ekki nánar af þeirri frægðarför, nema hvað Bílddælingur nokkur spurði hvað margir væru í hljómsveitinni. Ellefu og hálfur var svarið og förum við ekki nánar út í það og nefnum engin nöfn!

Hallgrímur Sveinsson.

DEILA