Byggðasafn Vestfjarða: vill ekki veita upplýsingar

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og formaður stjórnar Byggðasafns Vestfjarðar vill ekki svara því hverjir af umsækjunum um starf forstöðumanns  hafi verið metnir hæfir og hverjir hafi verið boðaðir í viðtal. En það hefur komið fram hjá honum að 4 af umsækjendunum 8 hafi fengið boð um viðtal.

Í svari við fyrirspurn Bæjarins besta vísar Guðmundur í 7. grein upplýsingalaga til stuðnings því að „upplýsingarnar sem okkur ber að veita einskorðist við nöfn umsækjenda og starfsheiti.“  Í umræddri lagagrein er kveðið á um þær upplýsingar sem skylt er að veita. Í lagagreininni er ekkert að sjá, sem meinar að veita frekari upplýsingar en skylt er, um umsækjendur og ráðningarferlið.

Óvíst um starf forstöðumanns Safnahússins

Guðmundur segir aðspurður að engin ákvörðun  liggi fyrir um það hvort sú staða sem Jóna Símonía Bjarnadóttir gegnir nú verði auglýst. Það er staða yfirmanns fjögurra safna, Bókasafnsins Ísafirði, Skjalasafnsins Ísafirði, Ljósmyndasafnsins Ísafirði og Listasafns Ísafjarðar.

Málefni safnanna heyrir undir atvinnu- og menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar og hefur nefndin aðeins haldið einn fund á árinu. Ekkert hefur verið bókað um söfnin eða yfirstjórn þeirra.

 

 

DEILA