Bolungavík: tekið þátt í Evrópuverkefni

Grunnskólinn í Bolungarvík hefur undanfarin tvö ár tekið þátt í Evrópusamstarfi á vegum Erasmus+. Verkefnið  heitir „Let´s talk about Europe“. Verkefnið var bæði kennara- og nemendaverkefni og unnið með kennurum og nemendum frá Ítalíu, Lúxemborg, Þýskalandi og Íslandi. Dagana 31.mars – 7. apríl sl. var síðasta nemendaferð verkefnisins.

Þau Alexandra, Íris, Kjartan og Jón Karl nemendur úr 10. – og 9. bekk grunnskólans fóru til Lúxemborg ásamt kennurum námsefnins.

Verkefnið „ Let´s talk about Europe“ hafði það meginþema að búa til námsefni og prufukenna námsefnið til að fræða ungt fólk um Evrópu og málefni sem snerta Evrópu. Í námsefninu sem samið var af íslensku kennurunum frá Bolungavík var áhersla lögð á annars vegar „Blue Planet“ (vatnsnotkun og umhverfismál) og hins vegar um „United in Europe“ (sameinuð í ólíkri; menningu, trú og gildum).

Í ferðinni til Lúxemborg unnu nemendur allskyns ólík verkefni í nokkrum hópum með nemendum frá Ítalíu, Lúxemborg og Þýskalandi. Einnig var farið til Brussel í Belgíu og farið í höfuðstöðvar Evrópusambandsins. Þar fengu nemendur að fara um húsnæðið með leiðsögumanni og funda með meðlimum úr Evrópuþinginu og borða í mötuneyti sambandsins. Einnig fengu gestirnir að fara í áheyrendasal á svölum Evrópusambandsþingsins og hlusta á umræður sem þar fóru fram um Brexit.

Nemendur gistu í heimahúsum hjá nemendum frá Lúxemborg.

Pálína Jóhannsdóttir, kennari var með í ferðinni og sagði í samtali við Bæjarins besta að nú væri þessu tveggja ára verekfni lokið. Það hefði verið mjög lærdómsríkt bæði fyrir kennara og nemendur.

Verkefnið var fjármagnað af Evrópusambandinu.

DEILA