Átakið hófst á aldarafmæli Hólskirkju.

Einar Jónatansson, formaður sóknarnefndar rakti það, í sérstöku samsæti í gær í Safnaðarheimilinu í Bolungavík,  hvernig til kom að ákveðið var að koma upp nýju orgeli í Hólskirkju í Bolungavík og svo hvernig gekk þar til að verkinu lauk nú með vígslu orgelsins.

„Það var langþráður draumur sem rættist hjá okkur í Hólskirkju á skírdag, þegar við tókum nýtt orgel í notkun. Þá voru rúm 10 ár liðin frá því að Kristný heitin Pálmadóttir gaf fyrstu gjöfina í orgelsjóðinn að fjárhæð kr. 500.000. Í hátíðarmessunni áðan má segja að lok þessa stóra verkefnis, sem svo lengi hefur verið unnið að, hafi verið innsigluð með vígslu biskupsins, hennar Agnesar okkar.“

 

Gamla orgelið var orðið 58 ára gamalt. Bolvíkingar gáfu orgelið í tilefni af 50 ára vígsluafmæli Hólskirkju og var það vígt í hátíðarmessu 17. júní árið 1960. Orgelið var barn síns tíma og var reyndar komið á síðasta snúning. Nokkur samskonar orgel frá þýsku orgelsmiðjunni Kemper & Sohn voru í kirkjum á Íslandi og var orgelið í Hólskirkju það síðasta sem skipt hefur verið út.

„Sóknarnefnd Hólssóknar var strax einhuga í ákvörðun sinni um að freista þess að ná samningi við Björgvin Tómasson orgelsmið, eina orgelsmiðinn á Íslandi, um smíði hljóðfærisins og gekk það eftir. Samningur um smíði 9 radda pípuorgels var síðan undirritaður hér í Safnaðarheimilinu 26. október 2017, en þá höfðum við séð fyrir endann á fjármögnun orgelsmíðinnar. Samningurinn hljóðaði upp á kr. 22.940.000.“

Leitast var við að nýta hluta af pípum gamla orgelsins og spara þar með þó nokkra fjármuni. Það gekk eftir og „því má segja að við tengjum saman gamla og nýja tímann og heyrum áfram hljóma ýmsar raddir gamla hljóðfærisins, sem Björgvin fór höndum um og hefur gert sem nýjar. Með Björgvin í uppsetningu orgelsins voru sambýliskona hans Margrét Erlingsdóttir rafvirki og Jóhann Hallur Jónsson húsgagnasmiður, sem smíðaði sjálft orgelhúsið, sem er afar vönduð smíð. Ég vil á þessum tímamótum þakka Björgvin einstaklega góð samskipti og viðskipti og óska honum og hans fólki til hamingju með þá fallegu og hljómfögru smíð sem nýja orgelið vissulega er.“

Síðan rakti Einar framlög sem bárust til orgelssmíðinnar allt frá 2008:

„Eins og ég gat um í upphafi máls míns, var það á aldarafmæli Hólskirkju árið 2008, sem Kristný heitin Pálmadóttir gaf fyrstu gjöfina í orgelsjóðinn. Árið 2009 gaf Daði Guðmundsson, sem átti sæti í sóknarnefnd um árabil kr. 1.000.000,- til minningar um eiginkonu sína Fríðu Dagmar Snorradóttur. Martha Sveinbjörnsdóttir gaf kr. 500.000,- til minningar um eiginmann sinn Karvel Pálmason árið 2011. Árið 2013 gaf Valdimar Lúðvík Gíslason kr. 1.000.000,- til minningar um eiginkonu sína Kristnýju Pálmadóttur en þess ber að geta að Kristný söng um áratugaskeið í kirkjukórnum líkt og Karvel bróðir hennar. Sama ár gaf Þórunn Benný Finnbogadóttir kr. 2.000.000,- í sjóðinn. Kvenfélagið Brautin hefur gefið samtals kr. 300.000,- líkt og Einar Guðmundsson og Ásdís Hrólfsdóttir.

Árið 2015 gaf Þorgeir Guðmundsson, söngmaður í kirkjukórnum til margra ára sjóðnum kr. 1.000.000,- til minningar um foreldra sína, Daðeyju Steinunni Einarsdóttur og Guðmund Einarsson.

Þá barst okkur myndarleg gjöf að fjárhæð kr. 4.000.000,- í orgelsjóðinn frá Einari, Halldóru, Bjarna og Ómari, börnum Hildar Einarsdóttur og Benedikts Bjarnasonar sem þau gáfu í minningu foreldra sinna. Hildur og Benedikt voru bæði mikið kirkjufólk. Þau sungu saman í kirkjukórnum í 50 – 60 ár auk þess sem Benedikt sat í sóknarnefnd Hólssóknar í tæp 50 ár um árabil sem formaður.

Þá gáfu afkomendur Helgu Svönu Ólafsdótur og Guðmundar Hraunbergs Egilssonar, þau Ólöf Svanhildur, Steinunn, Egill, María, Ólafur Helgi, Guðrún og Rögnvaldur kr. 300.000 til Hólskirkju til minningar um Hraunberg, en 9. desember 2017, hefði Hraunberg orðið 90 ára. Áður höfðu þau gefið myndarlegar gjafir í orgelsjóðinn. Í áratugi ljáði Guðmundur Hraunberg Hólskirkju starfskrafta sína sem meðhjálpari og kirkjuvörður. Hann var ætíð boðinn og búinn að leggja kirkjunni lið meðan starfskraftar leyfðu. Þá söng Helga Svana í kirkjukórnum um langt árabil.

Þá gaf Brynjar Bragason kr. 700.000 til minnangar um föður sinn Braga Helgason árið 2018.

Til viðbótar þeim gjöfum sem hér hefur verið minnst á, hefur mikill fjöldi fólks gefið ótal minningargjafir sem samtals nema meira en 6 milljónum króna.“

Til viðbótar þessum framlögum einstaklinga þá tók Bolvíkingafélagið málið upp á sína arma.

„Haustið 2015 var ráðist í það stórvirki að halda söfnunartónleika til styrktar orgelsjóðnum í Reykjavík. Að hætti Bolvíkinga var ákveðið að halda tónleikana í stærstu kirkju landsins, Hallgrímskirkju. Sérstök nefnd á vegum Bolvíkingafélagsins hafði veg og vanda að undirbúningnum. Nefndina skipuðu Katrín Þorkelsdóttir formaður, Einar Benediktsson og Steindór Karvelsson þáverandi formaður Bolvíkingafélagsins. Benedikt Sigurðsson, Benni Sig, starfaði ötullega að undirbúningi með nefndinni ekki síst við að fá tónlistarmenn sem tengjast Bolungarvík til að koma fram, ásamt því að vera kynnir á tónleikunum. Biskupinn okkar og fyrrverandi sóknarprestur Agnes M. Sigurðardóttir ávarpaði tónleikagesti, sem nánast fylltu Hallgrímskirkju, og var stundin ógleymanleg. Leikurinn var síðan endurtekinn árið 2017. Mikill fjöldi frábærra tónlistarmanna kom fram á báðum tónleikunum endurgjaldslaust. Þá styrktu fyrirtækin Jakob Valgeir, Olís og 10/11 rekstrarfélag tónleikana með myndarlegum hætti.

Ágóði af báðum tónleikunum ásamt sérstökum styrkjum vegna þeirra nam samtals tæpum þremur milljónum króna. Til viðbótar kom styrkur frá Bolvíkingafélaginu að fjárhæð kr. 1.500.000.

Það sannaðist í þessu stóra verkefni sem nú er lokið, að Bolvíkingum, búandi og brottfluttum þykir vænt um kirkjuna sína á Hólnum, og hafa enn einu sinni sýnt samtakamátt sinn. Fyrir hönd sóknarnefndarinnar þakka ég öllum sem lögðu hönd á plóg fyrir ómetanlegan stuðning.“

Þegar Kemper orgelið var vígt árið 1960, var Sigríður Norðquist organisti Hólskirkju. Hún starfaði við kirkjuna í rúma þrjá áratugi, lengur en nokkur annar. Nú þegar nýja orgelið er tekið í notkun, sem er opus 40 frá orgelsmiðju Björgvins Tómassonar, þ.e. fertugasta nýsmíði hans, er organisti Guðrún Bjarnveig Magnúsdóttir, sem verið hefur næst lengst organisti við kirkjuna eða í 24 ár.

Máli sínu lauk Einar Jónatansson með þessum orðum:

„Þegar sóknarnefndin samdi við Björgvin Tómasson orgelsmið má segja að haft hafi verið í huga máltækið, „Til þess skal vanda sem lengi skal standa“. Nýja orgelið sómir sér vel í fallegu kirkjunni okkar á Hóli og á vonandi eftir að hljóma við kirkjulegar athafnir næstu 150 til 200 árin.

Að lokum færi ég öllum þeim sem komu að vígsluathöfninni alúðarþakkir. Sóknarprestinum okkar henni Ástu Ingibjörgu, Guðrúnu Bjarnveigu organista, Sigrúnu Pálmadóttur sópransöngkonu, kirkjukór Bolungarvíkur, Kvennakór Ísafjarðar, Beötu og Pétri Erni, Steinunni Guðmundsdóttur, Margréti Jóhannsdóttur og Ingibjörgu Sigurðardóttur. Síðast en ekki síst þakka ég Biskup Íslands fyrir að hafa komið hingað í gömlu sóknina sína á þessum tímamótum, það kom reyndar ekkert annað til greina hvorki af okkar hálfu né hennar.“

 

DEILA