Aukin vatnsgæði, vöxtur og fiskivelferð í lokuðum eldiskvíum

Í júlí n.k. mun dýralæknirinn Arve Nilsen verja doktorsverkefni sitt við Norska Dýralæknaháskólann.  Verkefnið byggir á umfangsmiklum rannsóknum sem fóru fram á laxi í lokuðum eldiskvíum. Eitt meginviðfangsefni rannsókna var að meta vöxt og viðgang laxalúsar í lokuðum eldiskvíum og jafnframt mæla vaxtarskilyrði fyrir lax, auk fleiri þátta. Rannsóknir hófust árið 2012 og voru unnar í samstarfi við ýmsar stofnanir, háskóla og fyrirtæki. Mælingar fóru fram í litlum lokuðum rannsóknarkvíum og stórum lokuðum eldiskvíum, sem rúma allt að 300 tonna lífmassa hver.

Niðurstöður eru fjölþættar og komu að miklu á óvart. Þær hafa verið birtar í ritrýndum tímaritum og má nálgast hjá greinarhöfundi. Ein meginniðurstaða er að koma má alveg í veg fyrir lúsasmit ef sjóinntak er dýpra en 20 metrar. Vatnsgæði ráðast af þéttleika fiska, fóðrunarstyrk og sjóskiptum. Með örum sjóskiptum skapast allt að 5 faldur straumur í samanburði við straumhraða í norskum fjörðum. Súrefnisþörf er síðan fullnægt með beinni íblöndun á hreinu súrefni. Mikill straumur og góð fóðurdreifing eru lykilþættir fyrir því að þéttleiki laxa, vaxtarhraði og fóðurnýting er betri en í opnum eldiskvíum. Gott eftirlit á fóðurleifum er jafnframt mikilvægur þáttur í að hámarka fóðurnýtngu. Óvenju mikil og góð holdgæði á sláturlaxi komu skemmtilega á óvart, bæði hvað varðar mikinn stífleika á vöðva og bætta flakanýtingu. Síðan en ekki síst eru afföll á eldistímanum lítil eða undir 5%.  Þessar niðurstöður voru staðfestar í endurteknum rannsóknum yfir 6 ára tímabil.

Í umræðum hérlendis hafa komið fram mismunandi meiningar um hvað telst lokuð sjókví eða hálflokuð sjókví. Í því efni er rétt að horfa til þess að hve miklu leiti innstreymi og útstreymi er stjórnað. Allir eru sammála um að landeldisstöð sé lokað kerfi, enda er þar full stýring á innstreymi og útstreymi sjávar. Til eru lokaðar eldiskvíar með mismikla stjórnun á sjóskiptum. Eldiskvíar sem nýttar voru í rannsóknum Arve Nilsen voru hannaðar af fyrirtækinu AkvaDesign í Noregi. Í þeirri eldistækni er fullkomin stjórnun á sjóskiptum og teljast því lokaðar eldiskvíar. Með þessari eldistækni framleiðir fyrirtækið Akvafuture AS í Noregi nú 6.000 tonn af laxi.

Kostnaður vegna fjárfestingar í nýrri eldistækni er vissulega meiri en í opnum eldiskvíum. Hinsvegar er nú að koma í ljós að stofnkostnaður er fljótur að greiðast upp með lægri rekstrarkostnaði, sem stafar m.a. frá betri fóðurnýtingu og meiri tekjum sem fylgja minni afföllum og hærri flakanýtingu. Vottun afurða skilar einnig virðisaukningu. Uppsöfnun á úrgangsefnum leiðir auk þess til þess að kostnaður sem fylgir stöðugum tilfærslum á eldissvæðum og hvíld þeirra er óverulegur. Og í lokin má nefna að þessari eldistæki fylgja að sjálfsögðu engin útgjöld vegna meðhöndlunar gegn laxalús.

 

Jón Örn Pálsson

Verkefnisstjóri

AkvaFuture ehf

jop@akvafuture.is

DEILA