Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir 2018 samþykktur

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar var samþykktur í síðari umræðu bæjarstjórnar þann 2. maí síðastliðinn. Rekstrarafgangur Ísafjarðarbæjar nam 44 millj. kr. árið 2018 en gert hafði verið ráð fyrir 29 millj. kr. afgangi í fjárhagsáætlun. Niðurstaðan var í meginatriðum eins og fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir var 489 millj. kr. samanborið við 335 millj. kr. árið áður en áætlunin 2018 hafði gert ráð fyrir 504 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs var neikvæð um 14,2 millj. kr. en gert hafði verið ráð fyrir halla upp á 25,6 millj. kr.

Tekjur sveitarfélagsins námu 4.919 millj. kr. en gert hafði verið ráð fyrir 4.996 millj. kr. Laun og launatengd gjöld voru alls 2.517 millj. kr.  sem er um 5,5 millj. kr. yfir því sem áætlað var. Heildarfjöldi starfsmanna hjá sveitarfélaginu í árslok 2018 var 438 en meðalfjöldi stöðugilda 315. Launþegar á árinu voru í allt 706.

Skuldir 7,5 milljarðar króna

Heildar skuldir og skuldbindingar í ársreikningi 2018 voru 7,5 milljarðar króna og þar af eru vaxtaberandi skuldir 5 milljarðar króna. Skuldahlutfall sveitarfélagsins var 152,32% í árslok 2018 og hækkar úr 145,15% frá árslokum 2017. Þá hækkun má rekja til samkomulags um 562,8 millj. kr. framlag til Brúar lífeyrissjóðs sem fjármagnað var með láni frá Lánasjóði sveitarfélaga. Ef ekki hefði komið til þess þá hefði skuldahlutfallið lækkað á milli ára og verið um 141%. Skuldaviðmiðið var 99,76% í árslok samkvæmt reglum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en það var 114,26% árið áður. Ástæður lækkunar skuldaviðmiðsins má rekja til breyttra reglna við útreikning þess en með sambærilegum útreikningum árið áður var skuldaviðmiðið 100,92%.

Veltufé frá rekstri var 514 millj. kr. en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 463 millj. kr. Veltufé frá rekstri sýnir hvað rekstur gefur af sér til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.

Veltufjárhlutfallið var 0,88 í árslok 2018 en var 0,67 árið áður. Bókfært eigið fé nam 1.488 millj. kr. í árslok en var 1.354 millj. kr.  í árslok árið áður. Eiginfjárhlutfallið var 16,56% af heildarfjármagni en var 17,11% árið áður.

Íbúar Ísafjarðarbæjar þann 1. janúar 2019 voru 3.800 og fjölgaði þeim um 93 frá fyrra ári eða um 2,5%. Skatttekjur sveitarfélagsins voru 866 þús. kr. á hvern íbúa en tekjur samtals 1.295 þús. kr. á hvern íbúa.

DEILA