Árni og Rósa heiðruð af UMFÍ

Rósa og Árni ásamt Auði Ingu framkvæmdastjóra UMFÍ. Mynd: hsv.is

Á nýliðnu ársþingi HSV voru þau Árni Aðalbjarnarson og Rósa Þorsteinsdóttir heiðruð fyrir góð störf og framlag til heilsueflingar og íþróttastarfs á Ísafirði. Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ ávarpaði þingið og veitti þeim Árna og Rósu starfsmerki UMFÍ.

Árni og Rósa eru ásamt fleirum frumkvöðlar í almenningshlaupum á Ísafirði. Fyrir um 35 árum byrjuðu nokkrir einstaklingar að skokka sér til heilsubótar og úr varð skokkhópurinn Riddarar Rósu en Rósa var lengi vel eini kvenmaðurinn í hópnum og úr varð þetta skemmtilega nafn á hlaupahópnum sem haldist hefur allar götur síðan. Árni og Rósa hafa í gegnum tíðina tekið þátt í mörgum almenningshlaupum, bæði hér heima og erlendis, með miklum sóma. Þau hafa verið dugleg að breiða út boðskapinn, stutt vel við nýja hlaupafélaga og verið iðin við að halda mikilvægi lýðheilsu og forvarna á lofti. Þau hafa verið miklar fyrirmyndir í almenningshlaupum hér vestra og segja má að margir Ísfirðingar tengja skokkið við hjónin í Gamla bakarínu og dást að elju þeirra við íþróttina.

Óshlíðarhlaupið og síðar Hlaupahátíðin á Vestfjörðum er meðal viðburða sem hlaupahópurinn Riddarar Rósu hefur komið á og hafa þau hjónin lagt fram marga vinnutímana við framkvæmd þeirra. Hlaupahátíðin á Vestfjörðum er nú orðin ein stærsta íþróttahátíð á Íslandi þar sem fjöldi þátttakanda eykst með hverju ári. Árni er t.d eini hlauparinn sem tók þátt í öllum 23 Óshlíðarhlaupunum en hlaupið var fært vegna óöruggra aðstæðna á Óshlíðinni. .

DEILA