Afmæli Sjálfstæðisflokksins: Ólafur Thors var afburða sanngjarn maður sagði dr. Gylfi Þ. Gíslason

Ingibjörg og Ólafur Thors á kjörstað 1963. Ljósm. Ólafur K. Magnússon.

Almannarómur segir að Alþingi Íslendinga sé nú statt í öngstræti. Fulltrúar okkar þar séu almennt úti að aka, svo vægt sé til orða tekið. Harry S. Truman, einn besti forseti í sögu Bandaríkjanna, hélt því löngum fram í viðræðum við menn, að þeir ættu að lesa söguna áður en þeir tækju ákvarðanir. Þegar hann var öldungadeildarþingmaður á Bandaríkjaþingi var hann stöðugur gestur á bókasafni þingsins, einu því stærsta og fullkomnasta í heimi. Starfsfólkið þar sagði að enginn hefði notað safnið eins mikið og Truman. Hann þurfti nefnilega að læra af sögunni þegar hann tók afstöðu til mála. Þetta voru ekki bara orðin tóm hjá honum.

Alþingismenn okkar gætu tekið Truman til fyrirmyndar. Hvernig þá? Jú, til dæmis með því að lesa Ólafs sögu Thors 1. og 2. eftir Matthías Johannessen. Örugglega hafa sumir þeirra lesið þetta lærdómsríka verk Matthíasar. En það ætti að vera skyldulestur þeirra allra. Hvað ber til þess? Til dæmis eftirfarandi tilvitnanir í dr. Gylfa Þ. Gislason, andstæðing Ólafs lengi og síðar samverkamanns í Viðreisnarstjórninni:

„Nú kynntist ég manni, sem var mikill alvörumaður, vildi kanna og skilja hvert mál til hlítar, bar saman sínar skoðanir og annarra, var augljóslega að leita að réttri lausn á hverju máli, en hafði þó gert sér fullkomna grein fyrir því, að á sviði efnahagsmála skiptir fleira máli en fjármunir og hagsmunir. Þar þarf einnig að leiða hugann að tilfinningum og réttlæti.“

„Æ nánari kynni af Ólafi Thors sem forsætisráðherra í ríkisstjórn færðu mér heim sanninn um, að hann væri ekki aðeins sá töluglöggi og athuguli alvörumaður, sem ég hafði kynnst, er verið var að undirbúa nýja og gerbreytta stjórnarstefnu. Hann var jafnframt afburða sanngjarn maður. Ég komst að raun um, að kannski var það helsta aðalsmerki hans, hversu gott hjarta sló í brjósti hans. Það var þess vegna, sem mér fór smám saman að þykja vænt um hann, mjög vænt um hann.“

Hallgrímur Sveinsson.

DEILA