AÐ GEFNU TILEFNI

Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson.

Tengdafaðir minn, Hannibal Valdimarsson, var einhver umdeildasti stjórnmálamaður Íslands,  meðan hann lifði. Vestfirðingur í húð og hár, eins og flestir vita. Þegar ég var unglingur í Vesturbæ Reykjavíkur, sá ég oft myndir af honum í Morgunblaðinu. Þessum myndum fylgdi yfirleitt einhver skætingur og níð um persónu hans – en aldrei þó, að hann væri barnaníðingur, merkilegt nokk!

Ég man það ekki núna, hvort ég lagði einhvern trúnað á það sem ég las eða hvort það snerti mig yfirleitt nokkuð.  Þó leyni ég því ekki, að mér stóð hálfgerður stuggur af honum, þegar við hittumst í fyrsta sinn. Danasleikja, landráðamaður, laumukommi, uppreisnarseggur, lýðskrumari, kvennabósi,  lygari, óþverri – eflaust hafa öll þessi orð komið upp í huga mér. Ég hafði lesið þau í Blaðinu – blaði allra landsmanna –  svo oft, svo oft.

En auðvitað voru þetta bara orð án merkingar. Ég vissi ekki, hvern mann hann hefði að geyma, fyrr en ég hafði tekið í höndina á honum, horft í augu hans og setið til borðs með honum nokkrum sinnum. Fengið að kynnast hans innra manni. Eftir það lét ég allan róg og níð lönd og leið.

En auðvitað fór ekki hjá því, að allt þetta níð og rógur á síðum dagblaðanna síaðist inn á heimilin –  inn í eldhúskrókinn. Þar var hann borinn á borð með morgunkaffinu, síðdegiskaffinu – og jafnvel líka með kvöldkaffinu. Kökur voru óþarfar, því að ekkert rennur ljúflegar niður en slúðursögur, gómsætar og krassandi.

Amma mín var enn á lífi, þegar þetta var. Hún bjó meira að segja hjá okkur Jóni Baldvini, þegar við byrjuðum að búa saman. Það fór ekki hjá því, að hún kynntist tengdaföður mínum. Hún bar mikla virðingu fyrir Hannibal.

Amma var sívinnandi alþýðukona. Hún vann sér inn peninga með því að prjóna þelmjúka nærboli, hlýja vettlinga og sokka fyrir börn – og mynstruð sjöl fyrir konur úti í bæ. Þegar hún hafði pressað og pakkað inn þessum fallegu flíkum, lagði hún af stað fótgangandi bæjarenda á milli til þess að skila af sér. Oftast var henni boðið upp á kaffi í eldhúskróknum. Þar sat heimilisfólkið og masaði um landsins gagn og nauðsynjar. Oftar en ekki barst talið að tengdaföður mínum. Og eflaust hefur fólk haft lúmskt gaman af því að stríða gömlu konunni, láta hana heyra það um þennan nýja fjölskyldumeðlim.

Einhverju sinni hafði hún mátt sitja óvenju lengi undir kjaftavaðlinum og hlusta á fólkið smjatta á slúðursögum. „Og hvað segir þú nú, Margrét mín, um þennan mann?“, spurði húsmóðirin loksins. –

Það stóð ekki á svari hjá henni ömmu minni: „Ég er búin að þekkja þennan mann í nokkur ár. Og það segir mér alveg nóg um manninn, að ég hef aldrei heyrt hann tala svona um nokkra manneskju, eins og þið hafið talað um hann hér í dag“.

Og þar með var hún farin.

Þarf ég nokkru við að bæta?

Satt að segja skaust þessi hálfgleymda minning upp í hugann, þegar ég heyrði, að skólaslit Menntaskólans á Ísafirði færu fram þann 25. maí –  þ.e.a.s í dag. Þar verða þá væntanlega viðstaddir einhverjir úr seinasta árganginum sem Jón Baldvin útskrifaði, til að  fagna 40 ára stúdentsafmæli sínu.

Þeir mun væntanlega taka eftir því, að það er búið að fjarlægja málverk af fyrstu skólameistarahjónunum, sem hafði verið uppi á vegg í mötuneyti skólans í næstu 40 ár. Hvers vegna? Hafa þau verið dæmd fyrir glæp?  Eitthvað hlýtur það að vera, fyrst skólameistarinn, gamall nemandi okkar, telur okkur ekki lengur í sínum  húsum hæf. Ástæðan mun vera illt umtal í blöðunum – rógur og níð.

Mér finnst ástæða til að vekja athygli  Ísfirðinga á þessum gjörningi. Hann ætti að vera ýmsum verðugt umhugsunarefni á þessum stað og stundu.

Eitt að lokum. Menn verða að  vera sjálfum sér samkvæmir í verkum sínum –  hvort sem þau eru góð eða ill. Verður skólameistari ekki líka að sjá til þess, að Saga Menntaskólans á Ísafirði eftir fyrrum skólameistara, Björn Teitsson –  sem fer lofsamlegum orðum um brautryðjendurna –  verði fjarlægð af bókasafni skólans, rétt eins og myndin af veggnum?  Þá fyrst væri verkið fullkomnað.

Bryndís Schram

DEILA