1. maí 2019 á Ísafirði: Breytt valdahlutföll!

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur flytur ræðu sína. Mynd: Edda Pétursdóttir.

Góðir fundarmenn. Til hamingju með daginn.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að vera hér með ykkur í dag. 1. maí er einn helsti merkisdagur ársins. Hann er ekki venjulegur frídagur. Hann er baráttudagur. Baráttudagur fyrir bættu samfélagi, fyrir jöfnuði og fyrir réttlæti. Og hann er alþjóðlegur baráttudagur, haldinn hátíðlegur í öllum heimsálfum, þar sem vinnandi fólk sýnir samtakamátt sinn.

Dagurinn í dag er jafnframt sérstakur, því hann er fyrsti baráttudagur verkafólks, síðan ég man eftir mér, þar sem faðir minn, Pétur Sigurðsson er ekki til staðar. Hann helgaði stóran hluta ævi sinnar verkalýðshreyfingunni og baráttu launafólks. Hann ólst upp hér á Ísafirði, þar sem samtök verkafólks og stjórnmálahreyfing alþýðunnar voru samofin og sterk. Þar sem launafólk í krafti samtakamáttar hafði tekið völdin í bænum og stofnað samvinnuútgerð til að tryggja atvinnuna, þegar auðvaldið flúði burt úr bænum með fiskiskipin. Hér náði alþýðan að setja sterkt mark á samfélagið, byggt á lýðræðislegum grunni, verkalýðssamtökum og félagslegum rekstri. Það var sama uppskrift og virkaði vel víða á Norðurlöndum á sama tíma.

Pabbi ólst upp hér á Ísafirði á kreppuárunum, á milli 1930 og 1940, árum sem voru mörkuð erfiðleikum og atvinnuleysi. Og þó að hann væri heppinn, því afi og amma höfðu oftast trygga atvinnu og þokkalega afkomu, þá þekktu þau vel öryggisleysi fyrri kynslóða. Þau þekktu af eigin raun gamla landbúnaðarsamfélagið sem batt vinnufólk á klafa fátæktar og svipti það mannlegri reisn. Þau voru fyrsta kynslóðin sem tók þátt í uppbyggingu verkalýðsfélaga og jafnaðarhreyfingar. Þau sáu árangur samtakanna: viðurkenningu samningsréttar, fastan vinnutíma, almannatryggingar og orlof. Réttindi sem áður voru ekki til. Þetta var arfurinn sem faðir minn ólst upp við, þetta var veruleikinn sem mótaði lífsskoðun hans. Með samtökum gat launafólk haft áhrif á líf sitt og örlög. Með samstöðu væri hægt að breyta valdahlutföllum í samfélaginu. Þess vegna var mikilvægi verkalýðsbaráttunnar alltaf jafn mikið í huga hans.

Hvað gerðist í vetur?

Í vetur sannaðist enn einu sinni að baráttan er eilíf. Í vetur kom í ljós hversu mikilvæg samtök og samstaða launafólks er.  Alltíeinu, eftir margra ára bið, heyrðist rödd launafólks aftur, hátt og skírt. Rödd þeirra karla og kvenna, sem tóku á sig þungar byrðar eftir að fjárglæframenn settu fjármálakerfi þjóðarinnar á hausinn. Rödd láglaunafólks sem hefur mátt bíða í áratug eftir að röðin kæmi að þeim, til að fá réttlátan skerf af nýja góðærinu. Fólkið sem var látið bíða, á meðan hálaunafólk, fjármagnseigendur og fyrirtækjastjórnendur tóku til sín stærsta hlutann af kökunni.

Hvað gerðist svo þegar réttlátar kröfur launafólks komu fram, kröfur um mannsæmandi kjör og vinnutíma, í einu ríkasta þjóðfélagi heimsins?

Atvinnurekendavaldið var fljótt að skella í lás. Nei, hér er ekkert að hafa, sögðu þeir. Hér er allt á niðurleið. Það er ekkert afgangs eftir ofsagróða síðustu ára. Því miður, ekkert til skiptanna! Og hægri pressan og ráðandi stjórnmálaflokkar tóku undir. Nú yrði launafólk að sýna skilning, fara sér hægt, ekki gera óraunhæfar kröfur.

Þá gerðist það, sem ekki hafði gerst lengi. Það var kominn nýr tónn í félög verkafólks og forystu þeirra. Tónn sem atvinnurekendur og þjónar þeirra þekktu varla, nema úr sögubókum. Það var aftur talað um auðvald og réttlæti, jafnvel sósíalisma.

Það er slegið á gamlar nótur, sögðu atvinnurekendur. Og það var rétt. Þetta voru gamlar nótur, en þær eru ekki falskar og lögin eru sígild. Það voru hin sígildu sannindi verkalýðsbaráttunnar:  Ef launafólk vill láta hlusta á kröfur sínar, verður að tala hátt og tala skýrt. Það tekur enginn mark á verkalýðsfélagi sem ekki er tilbúið að láta reyna á samtakamáttinn. Það tekur enginn mark á launafólki sem ekki þorir að sýna hvers virði það er. Sýna hvernig það stendur undir framleiðslu og þjónustu í þessu landi. Hvernig vinna þess stendur undir gróða yfirstéttarinnar, hvernig framlag verkafólks, vinna þess, skattar og gjöld, eru undirstöður samfélagsbyggingarinnar.

Þessi gömlu sannindi komu í ljós, þegar verkalýðsfélögin skipulögðu verkföll í vetur. Og það þurfti ekki nema nokkra daga, þar til atvinnurekendur voru komnir að samningaborðinu og tilbúnir að semja. Þeir vildu ekki að verkafólkið sýndi mátt sinn og megin. Þeir vildu ekki að samtakamátturinn breytti valdahlutföllum í þjóðfélaginu. Þeir vildu semja, og skyndilega lá þeim mikið á.

Að láta sig hlakka til!

Það var nefnilega alveg rétt hjá Sólveigu Önnu formanni Eflingar þegar hún sagði að hana hlakkaði til baráttunnar. Að hana hlakkaði til að verkafólk sýndi mikilvægi sitt, þegar það legði niður vinnu.

Það vantaði ekki hneyklisraddirnar, eftir að hún lét þessi ummæli í ljós. Þeir áttu ekki orð, forystumenn atvinnurekenda, með tvær eða þrjár milljónir á mánuði, álitsgjafarnir úr viðskiptafræðideildunum og greiningafyrirtækjunum, sérfræðingarnir í bönkunum og fjölmiðlafólkið með margföld laun verkakvenna. Þau urðu alveg hvítheilög í framan, að þessi kona skyldi dirfast að hlakka til að láglaunafólk, sýndi hvers virði það væri fyrir samfélagið. Að krafan um rúmlega 400 þúsund króna mánaðarlaun væri ekki frekja, heldur sanngjörn krafa um lágmarkslaun í þessu dýrasta landi í heimi.

Og þegar ljóst var að launafólki var alvara. Þegar ljóst var að ekki tókst að sundra félögunum, að ekki tókst að grafa undan baráttuglaðri forystunni, heldur þvert á móti efldist baráttuandinn með hverri lotu. Þá varð auðvaldið skyndilega hrætt. Það þurfti ekki meira til að hræða peningaöflin í landinu.

Atvinnurekendur gátu skyndilega boðið meiri launahækkanir en þeir höfðu áður þóst geta borið. Ríkisstjórnin var þvinguð til að gefa eftir í skattamálum og húsnæðismálum, gefa stærri loforð en hún hafði ætlað. Það besta var að atvinnurekendur samþykktu að hækka lægstu laun hlutfallslega mest, með krónutöluhækkun. Sem þýðir launajöfnun.

Það liggur við að maður segi, að það hafi verið samið of snemma! Hefði ekki verið gaman að láta auðvaldið engjast soldið lengur – og fá aðeins meira fram? Það er spurning.

Trúlega var lendingin þó farsæl. Óþarfa átök er betra að forðast og niðurstaðan er áfangasigur fyrir láglaunafólk. Mikilvægara er þó að samstaða launafólks haldi áfram og tryggi það að samningarnir verði ekki sviknir. Að launabæturnar skili sér í bættum kjörum, en verði ekki teknar til baka með verðhækkunum eða nýjum skerðingum, hvort heldur frá hendi atvinnurekenda eða ríkisstjórnarinnar. Það þarf að passa!

Því það er strax byrjað að kroppa í launabæturnar og það með grófum hætti: Stórheildsalar tilkynna um hækkanir „vegna samninganna“, áður en byrjað er að borga út eftir þeim! Það á ekki að lækka launin hjá toppunum, eða draga saman í bruðli og bónusum. Nei, best að láta almenning borga og það strax! Þessu verður að svara með því að sniðganga vörur frá þessum gikkjum.

Lærdómur baráttunnar

Samningarnir í vetur eru áfangasigur. Þeim verður að fylgja fast eftir. Kannski er lærdómurinn þó fyrst og fremst sá, að ný kynslóð launafólks, sem aldrei áður hefur upplifað samtakamátt verkalýðsfélaganna, sá hvers virði samstaðan er. Og hvernig hægt er að breyta valdahlutföllum í samfélaginu með samstöðu og baráttu.

Þennan lærdóm þekkja margir hér inni. Þeir sem tóku þátt í verkfalli Vestfjarðafélaganna vorið 1997.  Það var langt og erfitt verkfall og stóð í margar vikur. Fámenn verkalýðsfélög, í landshluta þar sem kvótakerfið hafði sorfið byggðirnar og sjávarútvegurinn tapað veiðiheimildum. Hér stóð verkafólkið upp og hóf eitt og sér baráttu gegn öllu atvinnurekendavaldi landsins, gegn kvótaauðvaldinu og heildsalauðvaldinu, gegn hægri pressunni og óvinveittri ríkisstjórn. Samt tókst að virkja samstöðuna og baráttuna, sem vakti mikla athygli og samúð um allt land. Og það náðust kjarabætur, þó fórnarkostnaðurinn væri mikill.

Ég man að þá sagði faðir minn að krónurnar í launaumslagið segðu ekki allt. Það mikilvægasta við verkfall Vestfjarðafélaganna var lærdómurinn, samstaðan og baráttan. Hún myndi hafa áhrif til margra ára og skila sér í því að atvinnurekendur yrðu að taka tillit til verkalýðsfélaganna. Sígild sannindi, sem reynslan sannaði enn á ný nú í vetur.

Öld fólksins – en hvað svo?

Kynslóðin sem stofnaði verkalýðsfélögin fyrir hundrað árum síðan var sárafátæk. Hún átti ekkert nema vonina um betra líf. Þegar verkafólk tók að mynda samtök til að bæta kjör sín, leit ráðandi stétt á það sem hreina mógðun, uppsteit og frekju. Það varð að berja slíkt niður með öllum tiltækum ráðum. Og það var gert. En verkafólk lærði af reynslunni og með nýjar hugmyndir um jöfnuð og réttlæti að vopni, stóð það af sér árásir og bolabrögð. Sneri vörn í sókn og tókst að hafa afgerandi áhrif á þróun samfélagins á 20. öld, sem kölluð er öld fólksins.

En hver er staðan nú? Þegar verkafólk setur fram sanngjarnar og eðlilegar kröfur um lífvænleg kjör. Hvað er það kallað? Óraunsæi, niðurrifsstarfsemi, veruleikafirring. Það vantaði ekki stóru orðin í vetur. Hægri pressan reyndi að gera lítið úr forystu verkalýðsfélaganna, útmála þau sem æsingafólk, jafnvel stórhættulega byltingarsinna. Það var erfitt að finna þann fjölmiðil sem þorði að taka afstöðu með launafólki og baráttu þess. Valdahlutföllin í þjóðfélaginu eru óhagstæðari verkafólki nú, en var fyrir nokkrum áratugum.

Dagblöðin eru í eigu kvótahafa og fjármálaeigenda, svokallaðar frjálsar útvarps- og sjónvarpsstöðvar eru í eigu sömu aðila og flestir netmiðlar sömuleiðis. Það eru aðeins örfáir miðlar sem hægt er að telja óháða. Aðrir eru múlbundnir auðvaldinu og eru handbendi þeirra. Þetta kom vel í ljós í vetur. Fréttablaðið, Stöð 2, Bylgjan og fleiri köstuðu hlutleysisgrímunni og tóku skýra afstöðu gegn réttmætum kröfum verkafólks. Við bjuggumst aldrei við neinu öðru af Morgunblaðinu, enda stóð það vaktina vel fyrir eigendur sína. Ríkisútvarpið tiplaði á tánum, því ráðandi öfl hóta að leggja það niður, ef menn eru ekki þægir þar á bæ. Þannig er staðan í dag. Verkalýðshreyfingin á varla neina málsvara sem styðja málstað hennar, engar útvarps- eða sjónvarpsstöðvar. Engin fréttastofa, ekkert dagblað, ekki einn öflugur vefmiðill gefur sig út fyrir að verja sjónarmið launafólks í landinu. Hvernig má þetta vera?

Þetta er ein mynd þess að verkalýðshreyfingin hefur gefið of mikið eftir síðustu áratugi. Forræði stjórnmála, forræði fjölmiðla, forræði atvinnulífsins, forræði menningarinnar, menntunar og þjóðfélagsumræðunnar er að mestu í höndum ráðandi afla, fjármagns- og fyrirtækjaeigenda. Hvar eru málsvarar almennings í landinu?

Þessi valdahlutföll voru föður mínum mjög hugstæð. Ég man hvernig hann sá fyrir sér hlutverk verkalýðshreyfingarinnar. Hún var ekki aðeins tæki til að semja um kaup og kjör, þó að það væri einn af grundvallarþáttum verkalýðsfélaganna. Í hans huga hafði hreyfingin stærra hlutverk. Hún átti að hafa mótandi áhrif á samfélagið.

Áhrif verkalýðshreyfingarinnar

Vinnandi stéttir þessa lands, hvort heldur er verkakona í rækjuvinnslu, afgreiðslumaður í bakaríi, ræstingakona á opinberri stofnun, smiður í byggingavinnu, sjómaður á togara, kennari við skóla eða sjúkraliði á hjúkrunarheimili; allur almenningur á heimtingu á því að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Og verkalýðshreyfingin er tækið sem fólkið á og getur notað til að hafa áhrif.

Það var þess vegna sem kynslóð föður míns lagði mikla áherslu á fjölbreytt hlutverk verkalýðsfélaganna. Þau börðust fyrir styttri vinnutíma, til að fólk gæti notið frítíma og fjölskyldulífs, orlofs til að taka sumarfrí, sjúkrasjóða til að bæta upp tekjumissi vegna slysa og veikinda, atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofi og lífeyrissjóðum, allt til að þétta öryggisnet vinnandi fólks út ævina. En það var fleira sem þessi kynslóð taldi vera hlutverk verkalýðsfélaganna.

Það var að taka virkan þátt í menningarstarfi. Kynna fólki bókmenntir, tónlist og myndlist, til að allir gætu notið. Ekki bara fáir útvaldir. Það var þess vegna sem verkalýðsfélögin hér á Ísafirði reistu Alþýðuhúsið, menningarhöll fyrir almenning. Það var þess vegna sem verkalýðshreyfingin lagði áherslu á menningar- og fræðslustarf. Ég vona að fleiri en ég muni eftir rússnesku tónlistarmönnunum sem komu hingað vestur og léku á kaffistofum frystihúsanna, eða trúbadúrnum Joe Glass frá Bandaríkjunum, sem lék bandaríska baráttusöngva. Ég man eftir pabba hengja upp myndir eftir fremstu listamenn þjóðarinnar eða aka um með leikara eða tónlistarmenn á vinnustaði.

Menningardagskráin hér á 1. maí, ekki síst lúðrasveitin okkar sem leikur hér á hverju ári, er áminning um það að menningin er líka okkar. Við eigum hana ekki síður en eignastéttin og stórfyrirtækin, sem auglýsa sig kringum alla listviðburði í landinu til að láta okkur vita, að það voru þeir sem borguðu. En með hvaða peningum?

Peningunum sem þeir fengu fyrir verðmætin sem vinnandi fólk skapaði. Peningunum sem urðu afgangs af húsaleigunni sem launafólk borgaði Gamma og hvað þessi leigufyrirtækin heita, sem heimta sinn gróða. Og auglýsa svo ágæti sitt með stórum stöfum, með peningunum sem almenningur aflaði þeim.

Hér einsog víðar er hlutur vinnandi fólks ósýnilegur. Verkalýðshreyfingin er hætt að skipta sér af stjórnmálum, hætt að skipta sér af helstu þjóðfélagsmálum, hætt að miðla menningu, hætt að styðja fjölmiðla sem skýra hennar sjónarmið, hætt að skapa valkost við braskið og gróðahyggjuna, og þar til fyrir skömmu var hún líka var hætt að skipta sér af húsnæðismálum. En það er sem betur fer að breytast.

Verkalýðshreyfingin er að átta sig á því hvílíkt glapræði það var að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið sem hófst með byggingu verkamannabústaða árið 1931. Það var eitt helsta stolt gömlu kynslóðarinnar, en peningaöflin eyðilögðu það og lögðu það svo niður. Húsnæðismál láglaunafólks eru alveg jafn knýjandi í dag og þau voru fyrir áttatíu árum.

Ópólitísk hreyfing?

Með samtaka afli verkalýðshreyfingar og stjórnmálaflokka sem studdu hana var hægt að koma upp húsnæði, var hægt að setja lög um vinnutíma, var hægt að knýja fram almannatryggingar, atvinnuleysisbætur, lífeyrissjóði og margt fleira. En nú er rekinn stífur áróður fyrir því að verkalýðshreyfingin eigi að vera ópólitísk. Og hvaðan kemur sú hugmynd að verkalýðshreyfingin sé ekki pólitísk? Spáið í það? Hún kemur frá auðvaldinu, sem sjálf hefur sinn eigin stjórnmálaflokk og jafnvel tvo eða þrjá, sem keppast um að túlka sjónarmið peninga- og fjármagnsaflanna í þjóðfélaginu, kvótafyrirtækjanna í sjávarútvegi, fjármagnsaflanna sem vilja eignast bankana, eignast Landsvirkjun, einkavæða heilbrigðiskerfið, selja okkur aðgang að náttúruperlum landsins og ráða lífi okkar og örlögum.

Á tíma föður míns var verkalýðshreyfingin sterk. Hún hafði mikil áhrif, bæði hér í bænum, á Vestfjörðum og í landinu öllu. Hún átti sér fjölmiðla, sem voru kannski ekki þeir fjársterkustu, en þeir höfðu rödd sem varð að hlusta á. Hún átti sér öfluga málsvara, sem ekki varð komist framhjá, þegar taka átti stórar ákvarðanir. Sundrung verkalýðsaflanna þýddi reyndar að hægriöflin réðu alltof miklu, en þegar verkalýðshreyfingin og launafólk sameinaði krafta sína, þá breyttust valdahlutföllin í landinu, verkafólki í vil.

Hlökkum til baráttunnar!

Í vetur sáum við aftur glitta í þennan veruleika. Samstaða verkalýðs-hreyfingarinnar, undir forystu nýrrar kynslóðar, sem er óhrædd að tala máli láglaunafólks, leiddi til þess að umræðan í þjóðfélaginu breyttist. Það var ekki lengur sjálfsagt að samþykkja forsendur ríkisstjórnarinnar eða atvinnurekenda (sem kalla sig reyndar atvinnulífið núna – einsog verkafólk sé ekki hluti af atvinnulífinu).

Þrátt fyrir allan áróðurinn og yfirlýsingarnar, lygafréttir um að forystan hefði ekki stuðning fólksins,

  • þrátt fyrir alla hagfræðingana og sérfræðingana sem komu og lýstu því hvernig allt færi hér í þrot, bara ef verkafólk fengi 400 þúsund krónur í mánaðarlaun!
  • þrátt fyrir allan þennan áróður náðu verkalýðsfélögin að hræða atvinnurekendur til samninga. Með skipulagi og samstöðu.

Og þó að vinnustöðvarnir stæðu yfir aðeins í nokkra daga, þá fengu atvinnurekendur að sjá það vald sem samstaðan getur haft. Enn mikilvægara er að launafólk fékk að sjá glitta í þau völd sem verkalýðshreyfingin getur knúið fram, þau áhrif sem hún getur haft, ef hún er samstæð og samtaka.

Þegar verkalýðshreyfingin nær að knýja fram breytingar á valdahlutföllum í þjóðfélaginu til aukins jöfnuðar og aukins réttlætis, mun líf fólksins í landinu batna. Samfélagið verður réttlátara, menningin mun blómstra og hamingjan mun aukast. Það var fyrir þeim markmiðum sem faðir minn, Pétur Sigurðsson, barðist. Verum óhrædd. Hlökkum til baráttunnar.

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur

Ræða flutt 1. maí í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Frá göngunni 1. maí á ísafirði.
Mynd:Edda Pétursdóttir.
DEILA