Vestri: Konur í meirihluta stjórnar körfunnar

Nýkjörin stjórn og varamaður Kkd. Vestra: Harpa Guðmundsdóttir, Ingi Björn Guðnason, Birna Lárusdóttir, Ingólfur Þorleifsson, Helga Salóme Ingimarsdóttir og Gunnlaugur Gunnlaugsson, varamaður. Mynd af vefsíðu Vestra.

Aðalfundur Körfuknattleiksdeildar Vestra var haldinn í Vinnuverinu á Ísafirði síðasta vetrardag, 24. apríl. Kosið var í stjórn og er hún að mestu skipuð fulltrúum sem hafa setið um nokkra hríð í stjórn deildarinnar. Konur eru nú í fyrsta sinn meirihluti stjórnar Kkd. Vestra.

Ingólfur Þorleifsson var endurkjörinn formaður auk þess sem Birna Lárusdóttir, Harpa Guðmundsdóttir og Ingi Björn Guðnason gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Ný inn í stjórn kemur Helga Salóme Ingimarsdóttir, sem áður var varamaður. Þar með eru konur þrjár af fimm aðalmönnum í stjórn og er það í fyrsta sinn í sögu deildarinnar, og forverans KFÍ, sem þannig skipast í stjórn. Gunnlaugur Gunnlaugsson var kjörinn varamaður, og kemur nýr að stjórnarstörfum, en aðrir varamenn eru Birgir Örn Birgisson og Sveinn Rúnar Júlíusson, sem báðir hafa setið sem aðalmenn í stjórn.

Á fundinum voru fluttar skýrslur um starfsemi deildarinnar í vetur , gerð grein fyrir reikningum og fjárhag og Hjalti Karlsson, formaður aðalstjórnar íþróttafélagsins Vestra gerði skil þremur stórum verkefnum sem aðalstjórn hefur unnið að á síðustu misserum. Búið er að vinna viðbragðsáætlun, jafnréttisstefnu og siðareglur fyrir félagið.

DEILA