Troðfullt á tónleikum Villa Valla, Baldurs Geirmunds og félaga

Hinir fræknu fimm í góðri sveiflu. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson

Á skírdagskvöld voru tónleikar í Edinborgarhúsinu þar sem fram komu Villi Valli, Baldur Geirmunds, Magnús Reynir, Samúel Einarsson og Rúnar Vilbergsson.

Þrír þeirra voru í hljómsveit með Baldri Geirmunds, BG og Ingibjörg og tveir í hljómsveitinni VV og Barði og mega nú lesendur spreyta sig á því að skipa fimmmenningunum í rétta sveit.

Óhætt er að segja að fullt var út úr dyrum og talið er um 160 manns hafi verið í salnum. Hinir vel fullorðnu tónlistarmenn sýndu engin ellimerki og spiluðu allt kvöld framundir miðnættið við rífandi góðar undirtektir tónlistargesta. Flutt voru lög eftir Villa Valla, Baldur Geirmunds og fleiri, bæði innlend og erlend. Kynnir var Magnús Reynir og náði hann vel til gesta með góðri kynningu og hnyttnum athugasemdum.

Undir lokin var leikið lokalagið eftir  Baldir Geirmunds sem BG og Ingibjörg gerðu landsfrægt og Ingibjörg sem var einn tónleikagesta stóðst ekki mátið þegar Magnús Reynir rétti henni míkrafóninn og söng lagið eins og forðum. Segja þá að það hafi verið hápunktur góðar tónleika.

Villi Valli og Magnús Reynir.
Elísabet Gunnlaugsdóttir og fjölskylda.
Ingibjörg Guðmundsdóttir syngur lokalagið.
DEILA