Tölum um Torfnes 1

Sigurður Jón Hreinsson, bæjarfulltrúi, Ísafjarðarbæ.

Ísafjarðarbær er svokallað fjölkjarna sveitarfélag, sett saman úr fimm byggðarkjörnum. Því fylgja ekki bara kostir, því fylgja líka ákveðnir gallar, eins og sú að veita þarf sömu þjónustu á mörgum stöðum. Dæmi um slíka þjónustu er rekstur sundlauga, sem eru fjórar í sveitarfélaginu og þykir mörgum nóg um. Og nú eru uppi plön um að reisa sjötta íþróttahúsið í bæjarfélaginu og fleiri kostnaðarsamir verkliðir sem hangir á sömu spítu.

Það er verulega gagnrýnivert hversu grunn umræðan um þessi áform hafa verið. Enginn hefur viljað svara því hvernig endalegt útlit eða byggingarmagn verður við væntanlegt knattspyrnuhús, en vitað er um óskalista þess efnis á sama tíma og framtíðarsýn fyrir svæðið er ekki til. Allar tilraunir mínar, til að fá alvöru umræðu um húsið, Torfnessvæðið og skynsamlegustu leiðina til að nýta svæðið og peninga, hafa hingað til verið þaggaðar niður eins og einhvað óþægilegt bögg.

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína, að nauðsynlegt sé að skoða betur hver heppilegasta staðsetning á knattspyrnuhúsinu geti verið. Að staðsetja það á núverandi gervigrasvelli, sé skipulagslegt slys og muni hamla fjölbreittari nýtingu á húsinu auk þess að skerða verulega framtíðarmöguleika svæðisins í heild. Þetta stóra hús yrði þá jafnframt gríðarlega áberandi staðsett framan við Vallarhúsið og þar mun það blasa við víðsvegar úr firðinum, meðal annars af eyrinni.

Að mínu mati myndi staðsetning á knattspyrnuhúsinu við hliðina á núverandi íþróttahúsi á Torfnesi auka verulega nýtingarmöguleikana á húsinu, auk þess sem ákveðin samlegðaráhrif næðust í aðstöðu og rekstri. Þá væri jafnframt komin forsenda til að fara í löngu tímabærar fjölgun á búningsklefum. Sú staðsetning gerði knattspyrnuhúsið líka að betri kosti þegar um er að ræða stóra viðburði, þar sem andyri alls íþróttahússins og salernisaðstaða yrði sameiginlegt. Í útliti væri jafnframt hægt að milda áhrifin. Húsið sæist ekki utan af eyrinni og mögulegt væri td. að planta trjám meðfram því til að brjóta upp gríðarstóra fleti þess að sunnan- og vestanverðu.

Annar möguleik sem mér finnst eðlilegt að skoða, er að staðsetja húsið ekki á Torfnessvæðinu og hafa í viðbyggingu húsnæði sem nýst gæti sem líkamsræktaraðstaða. Með því mætti ná fram töluverðum samlegðaráhrifum í framkvæmdum og rekstri. En á Ísafirði er mjög brýn þörf er á að bæta almenna líkamsræktaraðstöðu fyrir íbúa.

Miðað við þau gögn sem ég hef séð, má reikna með að framkvæmdum á Torfnesi teljist ekki lokið fyrr en búið er að reisa knattspyrnuhúss, viðbyggingu fyrir tækjageymslu, og tengibyggingu við Vallarhúsið auk þess að leggja nýtt gervigras á keppnisvöllinn og endurnýja gervigrasið á restina af núverandi gervigrasvelli. Samanlagt má reikna með að heildar framkvæmdakostnaður við alla þessa liði fari nálægt 700 milljónum króna. Þá má gera ráð fyrir auknum rekstrarkostnaði vegna hússins, upp á uþb 30 milljónum á ári.

Er ekki full ástæða til að vanda sig og skoða alla möguleika? Við erum bæjarfélag með 3800 íbúum og það skiptir töluverðu máli hvernig skattpeninga okkar eru notaðir.

Sigurður Hreinsson, bæjarfulltrúi

DEILA