Teigsskógur: sjálfstæðismenn leggja fram lagafrumvarp

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundar í Teigsskógi við Þorskafjörð 31. mars 2019. Mynd: xd.is

Þingflokkur Sjálfstæðismanna hefur heimilað Haraldi Benediktssyni, alþm og 1. þm Norðvesturkjördæmis að leggja fram frumvarp til laga um lagningu láglendisvegar í gegnum Teigsskóg. Þetta var ákveðið á sérstökum þingflokksfundi sem haldinn var 31. mars sl., á sunnudaginn, í Teigsskógi. Þingflokkurinn var þá á leið suður að aflokinni Vestfjarðaför um helgina.

Birgir Ármannsson, formaður þingflokksins sagði að í samþykktinni fælist ekki sjálfkrafa stuðningur þingflokksins við þingmálið helsur aðeins heimild til þingmannsins til þess að leggja það fram. Hins vegar, sagði Birgir, að engin launung væri á því að mikill stuðningur væri við það í þingflokknum og hann sagðist eiga von á því að margir þingmenn myndu flytja málið með Haraldi bæði úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins og öðrum flokkum.

Að sögn Birgis er tilgangur þess að leggja málið fram einfaldlega sá að höggva á hnútinn og fá þá niðurstöðu að vegurinn verði lagður samkvæmt Þ-H leið. Aðspurður að því hvort málið myndi fá stuðning annarra ríkisstjórnarflokka, sagði Birgir að það yrði að koma í ljós þegar málið væri komið fram og umræður um það komnar af stað innan þingsins.

Ekki náðist í Harald Benediktsson í gærkvöldi.

DEILA