Reykhólar: deilt um samning án útboðs

Sveitarstjórn hefur samþykkt að  falla frá fyrri áformum um að bjóða út í alútboði byggingu íbúða á vegum sveitarfélagsins. Ætlunin er að byggja raðhús við Hólatröð. Samþykkt var að heimila sveitarstjóra að ganga til samninga við Hrafnhóla ehf um byggingu raðhúss „enda verði miðhúsið minnkað og kostnaður lækki sem því nemur“ eins og segir í samþykktinni. Fjórir sveitarstjórnarmenn greiddu atkvæði með og einn var á móti.

Jóhanna Ösp Einarsdóttir lét bóka:
„Húsnæðisskortur hefur verið viðloðandi í Reykhólahreppi undanfarin ár. Sveitarstjórn
hefur rætt um mikilvægi þess að byggja og stefnir þangað með fyrirætlunum um
alútboð. Fyrirliggjandi verksamningur við Hrafnshól stangast á við fyrri ákvarðanir um að bjóða út verkið við Hólatröð eins og áður var ákveðið.
Vanda þarf til verka í svona stórri framkvæmd og telur undirrituð það óábyrgt að
samþykkja verksamning við Hrafnshól áður en búið er að skoða aðra kosti líka.
Hinsvegar telur undirrituð brýnt að halda áfram fyrirhuguðum byggingaráformum og
að skoða aðra kosti áður en ákvörðun er tekin.“

Varaoddvitinn Árný Huld Haraldsdóttir lét þá færa til bókar:

„Ég samþykki það sem kemur fram hér að ofan, að sveitarstjóra sé heimilt að ganga til
samninga við Hrafnshóla um byggingu á raðhúsi við Hólatröð.
Ég geri mér fyllilega ljóst að uppbygging og fjölgun íbúða eða húsa er mjög mikilvæg á
Reykhólum. Sérstaklega þar sem mörg störf í sveitarfélaginu eru ómönnuð og ein
ástæð þess er vöntun á íbúðum/húsum.
Ég vil hins vegar að komi fram að ég hef ekki séð tilboð frá öðrum og finnst leitt að
verktökum á svæðinu hefur ekki verið gefinn kostur á að bjóða í verkið.“

Húsnæðissjálfseignarstofnun:
Samþykkt var að heimila sveitarstjóra að ganga til samninga við nágrannasveitarlög um stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar og er ætlunin að semja við Hrafnhóla ehf fyrir þess hönd. Sveitarstjóra var falið að gera breytingar á fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 í samræmi við 12% hlutdeild sveitarfélagsins í stofnframlagi vegna íbúðanna fyrir næsta fund.

DEILA