Patagonia, heimildamynd og herferð gegn laxeldi í opnum kvíum á Íslandi

Þann 10. apríl verður frumsýnd á Íslandi heimildamyndin ARTIFISHAL, sem framleidd er af stofnanda Patagoniu, Yvon Chouinard.  Í fréttatilkynningu frá Patagoníu segir að sjónum sé beint að skaðlegum áhrifum klakstöðva og opins fiskeldis á villta fiskistofna, ár og umhverfi. Kynningarherferð í Evrópu tekur sérstaklega til laxeldis við strendur Íslands, Noregs, Skotlands og Írlands með ákalli til almennings um að skrifa undir áskorun til ríkisstjórna þessara landa að banna laxeldi í opnum kvíum.

Ennfremur segir í tilkynningunni:

„Myndin sviptir hulunni af þeirri dýrkeyptu ranghugmynd að bæta megi fyrir eyðileggingu vistkerfa með hönnuðum tæknilausnum. Rakin eru áhrif klakstöðva og opinna eldisstöðva, iðnaðar sem hamlar viðgangi villtra fiskistofna, mengar ár og eykur vanda sem hann þykist leysa. Í Artifishal er kafað einnig undir yfirborðið, hvar almennir borgarar reyna að hindra frekari eyðileggingu áa, villtra laxastofna og sjóbirtings.

Artifishal varpar ljósi á þrengingar villtra fiskistofna af völdum klak- og eldisstöðva. Sýndar eru klakstöðvar í Kaliforníu, Washington, Oregon og Idaho í Bandaríkjunum, auk þess sem sýndar eru aðstæður í eldisstöðvum og undirmálslax sem þar er framleiddur í miklu magni. Í neðansjávarupptökum aðgerðasinna í fallegum firði nærri Alta í Noregi má sjá eyðileggingu og sjúkdómum af völdum eldis í opnum sjókvíum. „Maðurinn hefur alltaf talið sig æðri náttúrinni og það hefur komið okkur í mikil vandræði. Við þykjumst geta stýrt náttúrunni, en getum það ekki,“ segir Yvon Chouinard, stofnandi Patagoniu. „Ef við metum villtan lax einhvers þarf strax að grípa til aðgerða. Lífið er fátæklegra án óspilltrar náttúru og þessara merku tegunda. Glötum við öllum villtum tegundum, þá glötum við okkur sjálfum.“

Meirihluta laxeldisstöðva í Evrópu er að finna í Noregi og Skotlandi, þar sem þær hafa stórskaðað lífríki við ströndina. Opið eldi í kvíum á mikinn þátt í verulegri hnignun atlantshafslaxins. Stefnt er á veldisvöxt iðnaðarins í óspilltum fjörðum Íslands og hann heldur áfram að vaxa með ógnvænlegum hraða við Noreg, Skotland og Írland. Risastórar opnar sjókvíar eru farvegur sjúkdóma og mengunar í nærumhverfinu þar sem villtur lax og sjóbirtingur berst fyrir tilveru sinni. Á 40 árum hefur stofn atlantshafslaxins dregist saman úr tíu milljónum í þrjár. Takist ekki að verja heimkynni hans gæti stofninn brátt komist í útrýmingarhættu.Patagonia leggst á árar með frjálsum félagasamtökum sem berjast fyrir málstaðnum á hverjum stað“

 

og „Samtökin hafa tekið sig saman um undirskriftasöfnun þar sem krafist er banns á nýtt laxeldi í opnum sjókvíum og að smám saman verði dregið úr starfsemi eldisstöðva sem fyrir eru til þess að stöðva megi eyðileggingaráhrif á villta stofna og nærliggjandi vistkerfi.“

Patagónia er þannig kynnt í fréttatilkynningunni:

„Við störfum til að bjarga heimaplánetu okkar.

Patagonia, sem framleiðir útivistarfatnaðar, var stofnað árið 1973 af Yvon Chouinard. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Ventura í  Kaliforníu. Fyrirtækið er með samfélagsábyrgðarvottun og þekkt um heim allan fyrir áherslu á gæðaframleiðslu og aðgerðir í þágu umhverfisverndar—og fyrir að hafa til þessa veitt yfir 100 milljónum dala í styrki og gjafir í þágu málefnisins.“

DEILA